Börn í umhverfisnefnd eru elstu börn á leikskólanum Heklukoti. Þau fá markvissa fræðslu í umhverfismennt einu sinni í viku og hafa þau haft í nægu að snúast í allan vetur. Þau hafa tekið fyrir verkefnin Húsið mitt og Bærinn minn með mjög góðum árangri. Þau voru dugleg að fylgjast með henni Vilborgu Örnu þegar hún gekk á Suðurpólinn og fengu góða fræðslu um það efni.
Frá því að leikskólinn ákvað að verða skóli á grænni grein hefur verið markvisst unnið með átthaga sem aðal þema. Það hefur gengið vonum framar og hefur hjúkrunar og dvalarheimilið Lundur leikið stórt hlutverk í því.
Tekin var sú ákvörðun að setja nýtt „aðal“ þema í leikskólanum fyrir þetta ár. Það sem varð fyrir valinu var lýðheilsa með sérstaka áherslu á vatn. Ýmis verkefni verða unnin í tengslum við vatnið, þar á meðal söfnunarverkefni sem umhverfisnefnd hefur umsjón með. Ákveðið var að standa fyrir söfnun fyrir nýjum vatnsbrunni í Malaví í Afríku. Börnin hyggjast safna með ýmsum hætti, þar á meðal ætla þau að safna dósum og flöskum og fara reglulega með það í endurvinnslu. Peningunum er svo safnað í stóra glerkrukku sem umhverfisnefnd hefur umsjón með.
Málefnið er gott og getur falið í sér óendanlega uppsprettu nýrra hugmynda sem hægt er að nýta sér í leikskólastarfinu.
Myndirnar og sögurnar gerðu börnin eftir að hafa hlustað á sögu um börn í Afríku sem fara langar leiðir eftir drykkjarvatni.