Verkið er um fimm kynslóðir sömu ættar, sem bjó á sjö býlum á Rangárvöllum og í Landsveit frá 1760 til 1941.
Þetta fólk er löngu horfið en víða eru ummerki búsetu þeirra, hlaðnir garðar og húsveggir og grónar tóftir. Sumstaðar eru ummerkin ógreinileg, jafnvel horfin undir gróður og sand. Við sjóndeildarhring rísa tignarleg fjöll og Hekla, drottningin sjálf, skipar öndvegi við hálendisbrún.
Minningin um fólkið tengist stöðunum og sveitinni þar sem það fæddist, lifði og dó. Þarna er náttúran stórbrotin, fögur en líka ógnvekjandi og minningin um fólkið er samofin þessari náttúru.
Sagan og staðirnir vernda hvert annað. Ef við þekkjum söguna og virðum hana þá flyst sú virðing yfir á staðina, yfir á náttúruna. Sögustaður er að vissu leiti heilagur staður. Saga fólks eru rætur okkar og ræturnar liggja í landinu.
Fólkið er minning og býlin eru grónar tóftir. Ein tóftin er á Reynifelli á Rangárvöllum. Þar byrjar sagan og þaðan liggur söguþráðurinn yfir í Landsveit, að sex stöðum: Mörk, Gamla-Klofa, Stóra-Klofa, Gamla Skarðsseli, Skarðsseli við Þjórsá og að lokum að Skarfanesi.
Texti fengin af www.listahatid.is