Borun eftir heitu vatni í Götu hætt
Veitur hafa nú hætt borun í landi Götu við Laugaland. Markmið borunarinnar var að afla heits vatns og auka þannig nýtanlegan forða fyrir Rangárveitur er þjóna Rangárþingum og Ásahreppi að hluta.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.
Upphaflega var gert ráð fyrir að borholan yrði 1.800 m djúp en ákveðið var að dýpka holuna í von um að hitta á góðar vatnsæðar. Var borað niður á 1.855 m dýpi en árangur hefur ekki verið í takt við væntingar og núverandi aðstæður bjóða ekki upp á frekari borun á svæðinu. Veitur munu gera mælingar á holunni og taka ákvarðanir um frekari forðaöflun fyrir Rangárveitur í kjölfarið.
22. nóvember 2017
Fréttir