Reglur um frístundastyrki í Rangárþingi ytra
1. gr.
Markmið og tilgangur
Rangárþing ytra veitir foreldrum/forráðamönnum barna á aldrinum 6-16 ára frístundastyrki vegna þátttöku í skipulögðu íþrótta-, tómstunda og æskulýðsstarfi, nefnt frístundastarf.
Meginmarkmið frístundastyrksins er að tryggja að öll börn, 6-16 ára, í Rangárþingi ytra getið tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi og að foreldrum þeirra og forráðamönnum verði gert auðveldara að standa straum af þeim kostnaði sem af þátttökunni hlýst.
2. gr.
Almennt um frístundastyrk og úthlutunarreglur
Styrkupphæðin ákvarðast við gerð fjárhagsáætlunar Rangárþings ytra og gildir frá 1. janúar til og með 31. desember ár hvert.
Frístundastyrkurinn er greiddur af Rangárþingi ytra skv. ráðstöfun foreldra/forráðamanna í skipulagt frístundastarf í gegnum Sportabler kerfið til félags/fyrirtækis er standa fyrir viðkomandi frístundastarfi og falla undir styrkhæfisreglur sveitarfélagsins skv. 4.gr.
Með frístundastyrknum má greiða að fullu, eða hluta, fyrir frístundastarf á vegum félaga/fyrirtækja sem falla undir styrkhæfisreglur. Foreldrar/forráðamenn barna geta ráðstafað frístundastyrknum hvenær sem er á árinu og óháð fjölda greina/námskeiða.
Frístundastyrkur gildir ekki sem greiðsla fyrir aðbúnað, ferðalög eða annan tilfallandi kostnað vegna keppni eða þjálfunar.
Ráðstöfun er endanleg. Ekki er hægt að endurgreiða eða bakfæra styrk þegar foreldri/forráðamaður hefur ráðstafað styrk til félags/fyrirtækis á grundvelli frístundastyrksins.
3. gr.
Skilyrði fyrir veitingu styrks
Að barnið eigi lögheimili í Rangárþingi ytra og sé á aldrinum 6-16 ára miðað við fæðingarár. Iðkendur eiga rétt á styrk frá og með því ári sem 6 ára aldri er náð, til og með því ári sem 16 ára aldri er náð.
Börn sem flytja í Rangárþing ytra fá fullan styrk á því ári sem flutt er í bæjarfélagið.
4. gr.
Skipulagt frístundastarf og styrkhæfi aðila
Félög eða fyrirtæki með starfsemi sem fellur undir markmið þessara reglna og teljast styrkhæf hafa heimild til að taka við frístundastyrk frá Rangárþingi ytra óski þeir eftir samstarfssamningi. Öll íþróttafélög sem tilheyra sérsamböndum og íþróttanefndum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands skulu hafa tengingu við Sportabler kerfið.
Velferð og hagur barna skal hafður að leiðarljósi í frístundastarfi og í samræmi við ákvæði laga og reglugerða er varða börn. Skipulagt frístundastarf þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði til að teljast styrkhæft:
- Að um sé að ræða skipulagt frístundastarf undir stjórn/leiðsögn fagaðila á sviði íþrótta- og tómstunda. Börn undir 18 ára aldri skulu ekki starfa við þjálfun, kennslu- eða leiðbeinendastörf í barnastarfi ein síns liðs. Fagaðili getur þó haft einstaklinga undir 18 ára aldri sér til aðstoðar.
- Starfsemi sem telst styrkhæf er starfsemi á vegum íþrótta- og tómstundafélaga, nám við tónlistarskóla og dansskóla. Skipulögð námskeið s. innan líkamsræktarstöðva, sjálfsstyrkingar og önnur þau námskeið sem uppfylla skilyrði reglna þessara falla undir styrkinn.
- Starfsemi sem ekki telst styrkhæf er starfsemi trúfélaga önnur en kórastarf og annarra lífsskoðunarfélaga, stjórnmálasamtaka og viðvera eftir skóla.
- Aðili sem sinnir skipulögðu frístundastarfi skal gera samning um frístundastyrk við Rangárþing ytra að uppfylltum reglum um styrkhæfi.
- Þau félög/fyrirtæki sem taka við frístundastyrk frá Rangárþingi ytra skulu leitast við að stilla verðlagi á æfinga- og þátttökugjöldum í hóf og veita sveitarfélaginu upplýsingar um gjaldskrár sé þess óskað.
- Heilsu-, íþrótta- og tómstundafulltrúi Rangárþings ytra metur hvort einstakir aðilar uppfylli skilyrði reglna þessara. Leiki vafi á styrkhæfi er það borið undir heilsu-, íþrótta- og tómstundanefnd Rangárþings ytra.
5. gr.
Samstarfssamningur
Aðilar sem uppfylla ofangreindar reglur um frístundastyrki geta fyllt út samstarfssamning á heimasíðu Rangárþings ytra.
Þar skulu m.a. eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram:
- Nafn, kennitala, reikningsnúmer, símanúmer, netfang og heimasíða aðila. Að auki nafn,kennitala, símanúmer og netfang tengiliðs vegna umsóknar og/eða ábyrgðaraðila.
- Tegund starfsemi og starfssvæði
- Tímatöflur og námskeiðsframboð
- Gjaldskrá
- Upplýsingar um aðstöðu/húsnæði
6. gr.
Framkvæmd frístundastyrks
Ekki er um beingreiðslur til foreldra/forráðamanna að ræða, heldur hafa þeir rétt til að ráðstafa tilgreindri upphæð í nafni barns síns til niðurgreiðslu á þátttöku- og æfingagjöldum.
- Foreldrar/forráðamenn skrá iðkendur í Sportabler kerfið í gegnum viðkomandi félag.
- Í skráningarferlinu, þar sem er m.a. gengið frá greiðslu námskeiðs geta foreldrar/forráðamenn valið að ráðstafa styrk iðkandans hjá viðkomandi félagi/fyrirtæki rafrænt.
- Ekki er hægt að ráðstafa hærri upphæð til félags en námskeiðið kostar.
- Þegar foreldri/forráðamaður staðfestir þátttöku barns fær viðkomandi félag/fyrirtæki og Rangárþing ytra staðfestingu þar um.
- Rangárþing ytra greiðir frístundastyrki til viðkomandi í byrjun hvers mánaðar fyrir skráða styrki mánuðinn á undan.
- Í kvittun til þátttakenda um námskeiðskostnað skal félag tilgreina hlut sveitarfélagsins í greiðslu vegna námskeiðsgjaldsins.
- Ónýttir frístundastyrkir flytjast/geymast ekki á milli ára.
7. gr.
Uppgjör og skil aðila á gögnum
Heilsu-, íþrótta- og tómstundafulltrúi og skrifstofa Rangárþings ytra fer með styrkuppgjör. Styrkuppgjör á grundvelli skráninga í Sportabler fer fram í byrjun mánaðar. Aðilum að frístundastyrknum ber að skrá alla þátttakendur á hverju tímabili í Sportabler, hvort sem þeir nýta styrkinn hjá viðkomandi aðila eða ekki.
8. gr.
Endurskoðun
Reglur þessar verða endurskoðaðar eins oft og þurfa þykir.
Samþykkt í sveitarstjórn 14. desember 2022