Í Rangárþingi ytra eru fjölmargar stikaðar gönguleiðir en flestar eru þær í Landsveit og í tengslum við Friðland að fjallabaki. Hér verða nefndar nokkrar leiðir en fleiri leiðir eru aðgengilegar t.d. í bókinni Hellismannaleið e. Guðna Olgeirsson og bókinni Gönguleiðir að Fjallabaki e. Írisi Marelsdóttir. Leiðirnar sem hér eru nefndar eru úr bók Guðna og birtar með góðfúslegu leyfi hans.
Hellismannaleið - Gönguleið frá Leirubakka í Landsveit í Landmannalaugar.
"Um miðjan 10. áratug 20. aldar fóru heimamenn í Rangárþingi ytra, m.a. þeir sem reka ferðaþjónustu í skálum á Landmannaafrétti og nágrenni að velta fyrir sér þeim möguleika að marka gönguleið á milli skála á svæðinu. Eitt leiddi af öðru og smám saman jókst áhuginn á þessu verkefni og hugmyndir mótuðust um gönguleið úr byggð í Landsveit allar götur inn í Landmannalaugar. Haukur Jóhannesson fyrrverandi forseti Ferðafélags Íslands mun eiga hugmyndina að nafninu Hellismannaleið fyrir þessa nýju gönguleið. Með nafninu er ekki vísað beitn í sérstaka sögu af hellismönnum eða útilegumönnum en miðstöð ferðaþjónustu við Landmannahelli er í umsjón félags sem heitir Hellismenn ehf. Einnig má geta þess að fyrr á árum var skipt liði í smalamennsku á haustin, hluti smala varð eftir í Landmannahelli og voru þeir nefndir Hellismenn. Hinn hluti fjallmann fór austur í Landmannalaugar og kölluðust Laugamenn eða Gilsmenn, þetta fyrirkomulag hélst til 1970. Nafnið Hellismannaleið festist fljótlega við gönguleiðina sem var stikuð í áföngum á árunum 2006-2008 af áhugafólki sem hefur tengsl við svæðið. Merkta leiði frá Rjúpnavöllum í Landsveit í Landmannalaugar var síðan formlega opnuð 2009. Leiðin er alls 57km, þ.e. svipað löng og Laugavegurinn og álíka krefjandi."
1. Leirubakki - Rjúpnavellir (Skarfanesleið) 25km
2. Rjúpnavellir - Áfangagil (í ríki Heklu) 18,5km
3. Áfangagil - Rjúpnavellir (Landmannaafréttur) 22,5km
4. Landmannahellir - Landmannalaugar (Friðland að fjallabaki) 16,5km
Laugavegurinn
Laugavegurinn er 55km gönguleið frá Landmannalaugum í Þórsmörk, hefur árum saman verið vinsælasta gönguleiðin um hálendi íslands. Vinsældir þessarar stórbrotnu gönguleiðar hafa aukist verulega undanfarinn áratug, bæði hjá innlendum og erlendum gönguhópum.
1. Landmannalaugar - Hrafntinnusker 12km
2. Hrafntinnusker - Álftavatn 12km
3. Álftavatn - Emstrur 15km
4. Emstrur - Þórsmörk 15km
Gönguleið meðfram Ytri-Rangá frá Hellu
Hægt er að ganga virkilega skemmtilega leið frá Hellu og niður að Ægisíðufossi meðfram Rangá. Þessi leið er um 3km löng en auðvelt er að ganga hana þar sem ágætur göngustígur er alla leið. Rangá-in er höfuðprýði Hellu og allir sem ganga þessa leið munu skynja það að göngu lokinni. Virkilega fjölbreytt fuglalíf er meðfram ánni og ef heppnin er með göngufólki má sjá stöku lax stökkva enda Ytri-Rangá ein besta laxveiðiá landsins.