Þann 14. desember s.l. undirritaði Rangárþing ytra samstarfssamning við Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Markmiðið með samningnum er fyrst og fremst að standa vörð um heilsu starfsmanna og hvetja til heilsueflingar. Föstum starfsmönnum Rangárþings ytra verður boðið upp á heilsufarsskoðun árlega. Þá er mældur blóðþrýstingur, tekið kólesteról og blóðsykur. Einnig viðtal og staðfesting á vinnufærni. Starfsmönnum er einnig boðið upp á inflúensubólusetningu sem og aðrar bólusetningar eftir atvikum.
Frá og með 1. janúar 2016 þurfa starfsmenn að tilkynna fjarvistir úr vinnu vegna veikinda til hjúkrunarfræðings HSU á milli kl. 08:00 og 09:30. Hjúkrunarfræðingur vísar áfram á lækni eftir þörfum og mati. Símanúmer veikindatilkynninga er 432-2706.
Í janúar 2016 mun hjúkrunarfræðingur frá HSU fara á alla vinnustaði sveitarfélagsins og kynna þá þjónustu sem samningurinn býður uppá fyrir starfsmenn sveitarfélagsins.