Tengibyggingin á milli húsanna við Suðurlandsveg 1 og 3 hefur verið áberandi í samfélagsumræðunni síðustu misseri og er einnig áberandi í ársreikningi sveitarfélagsins. Byggingarkostnaður og annar kostnaður við verkefnið nemur nú nálægt hálfum milljarði en verkinu er þó ekki lokið að fullu, t.a.m. á eftir að klæða bæði hliðarhúsin og ganga frá baklóð.
Erfiðleikar hafa verið í tengslum við fjármögnun verkefnisins en efnahagur félagsins, Suðurlandsvegar 1-3 ehf., var þó styrktur með aukningu hlutafjár í maí 2011. Hluthafar lögðu fasteignir, Suðurlandsveg 1 og Suðurlandsveg 3, inn í félagið og kröfum hluthafa á félagið var breytt í hlutafé. Aðrar leiðir voru ekki færar að mati eigenda félagsins.
Frá þessari fjárhagslegu endurskipulagningu hefur verið unnið að framvindu verksamnings en ótal önnur verkefni tengjast byggingunni. Um þessar mundir stendur Kjarval fyrir breytingum á sínu leigurými og ytri rammi Vínbúðar er í mótun. Skrifað hefur verið undir nýjan leigusamninga við báða þessa aðila. Apótekið Lyf og heilsa hefur einnig skrifað undir leigusamning vegna rýmis á 1. hæð hússins, lyfjaverslunin mun flytja inn á næstu misserum. Sjúkraþjálfun Shou hefur opnað fyrir sína starfsemi á jarðhæð tengibyggingar. Einnig hefur verið gerður leigusamningu við teiknistofuna Steinsholt, tryggingafélagið Sjóvá og Félagsþjónustu Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu. Steinsholt og Sjóvá koma inn í tengibygginguna en Félagsþjónustan inn á 2. hæð Suðurlandsvegar 1, þar sem skrifstofur sveitarfélagsins eru til húsa. Þá hafa sveitarfélagið Rangárþing ytra, Verkalýðsfélag Suðurlands og Lífeyrissjóður Rangæinga gert leigusamninga við eiganda hússins, Suðurlandsveg 1-3 hf., en það félag er í 69% eigu sveitarfélagsins á móti 31% hlut Verkalýðshússins ehf.
Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í þeirri vinnu að koma nýrri starfsemi í húsið sem og að uppfæra leigusamninga við þá sem fyrir voru í hliðarhúsunum er margt óunnið og mörg verkefni aðsteðjandi sem þarf að sinna. Þar ber helst að nefna að verktakar hússins hafa ekki lokið framkvæmdum og stendur flókið uppgjörsferli yfir þessi misserin. Þá er jafnframt matsferli í gangi hjá félaginu vegna óuppgerðra tryggingamála frá fyrri tíð. Sveitarfélagið hefur gert samning við Suðurlandsveg 1-3 ehf. um stjórn og umsjón yfirstandandi framkvæmda. Gunnar Aron Ólason hefur verið ráðinn tímabundið til Rangárþings ytra við að sinna helstu verkefnum sem snúa að framkvæmdum við Suðurlandsveg 1-3 og öðrum aðsteðjandi verkefnum. Starfskjör fylgja kjarasamningi bæjarstarfsmanna. Gunnar hefur unnið að gerð þeirra leigusamninga sem gerðir hafa verið í húsinu hingað til og verið í tengslum við leigjendur í gegnum allt ferlið. Mikilvægt er að fylgja því eftir þangað til að húsið kemst í daglegan rekstur ef svo má segja og allir leigjendur hafa komið sér vel fyrir, þá mun reksturinn falla inn í aðra daglega eignaumsjón hjá sveitarfélaginu.
Enn eru um 600-700 fermetrar lausir til útleigu í húsinu og nauðsynlegt er að koma öllum fermetrum í fulla útleigu svo að rekstur þess taki sem minnst til sín í bókum eigenda þess. Þetta er stórt verkefni sem þarf að sinna með öðrum mikilvægum. Þó að starfsmaður hafi verið ráðinn sérstaklega í verkefni sem tengjast nýrri tengibygginu við Suðurlandsveg 1-3 hefur verið ákveðið að nýta hann til annarra verka sem sveitarfélagið hefur með höndum. Þar má nefna innleiðingu á nýju skjalastjórnunarkerfi, OneSystems, fyrir sveitarfélagið. Halda þarf utan um innleiðingu á nýrri heimasíðu Rangárþings ytra og uppfærslu síðunnar. Áherslu skal leggja á að virkja íbúagátt heimasíðunnar með tengingu við OneSystems og Navision bókhalds- og upplýsingakerfið sem verið er að koma í gagnið. Sinna þarf innleiðingu á nýju netkerfi stofnana sveitarfélagsins. Leita skal hagkvæmustu leiða við rekstur kerfisins sem byggir á ljósleiðaratengingu milli skrifstofu, grunnskóla, íþróttamiðstöðvar og leikskóla á Hellu. Í þessu sambandi má nefna sameiginlegan netþjón, nettengingar, símkerfi og aðra mögulega hagræna samnýtingu upplýsingakerfa. Skoða skal sérstaklega mögulega tengingu annarra undirstofnana við kerfið, s.s. þjónustumiðstöð og starfsemi á Laugalandi. Kynna þarf lóðir undir atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. Má í þessu sambandi nefna fyrirhugaða þjónustulóð við Gaddstaðaflatir. Leita þarf leiða til verðmætasköpunar á eignum sveitarfélagsins, s.s. fasteignum, lóðum og lendum.
Flestum má vera ljóst að verkefnin sem að steðja hjá sveitarfélaginu eru risavaxin og er félagið Suðurlandsvegur 1-3 ehf. þar í forgangi vegna viðkvæmrar stöðu þess. Verkefninu þarf að sinna svo að verðmæti geti skapast sem fyrst. Mikið hefur áunnist en að sama skapi er mikið verk fyrir höndum. Sveitarfélagið er komið í þá stöðu að vera einn stærsti leigusali á Suðurlandi og verið er að reyna að sinna því í samræmi. Ákveðið hefur verið að setja fundargerðir félagsins á nýja heimasíðu sveitarfélagsins í samræmi við ákvörðun stjórnar þar sem félagið er orðið B-hluta stofnun sveitarfélagsins. Tengibyggingin við Suðurlandsveg 1-3 á Hellu hefur verið byggð að öllu leyti fyrir almannafé og því tímabært að almenningur fái að sjá tilurð og orsakasamhengi í byggingarferlinu.
Gunnsteinn R. Ómarsson,
sveitarstjóri Rangárþings ytra.