Auglýst var eftir fulltrúum í íbúaráð Rangárþings ytra í haustbyrjun. Lagt var upp með að ráðið yrði skipað fjórum fulltrúum og fjórum til vara, nánar tiltekið einum aðalmanni og einum til vara úr hverju „hverfi“ sveitarfélagsins, þ.e. frá Hellu, dreifbýli Rangárvalla, Holta- og Landsveit og svæðinu sem nær yfir fyrrum Djúpárhrepp.
Sjö framboð bárust, þar af þrjú frá Hellu, þrjú frá Holta- og Landsveit, aðeins eitt frá fyrrum Djúpárhreppi en ekkert frá dreifbýli Rangárvalla. Sveitarstjórn tók því til þess ráðs að draga úr nöfnum þeirra sem sóttu um en vegna fárra framboða eru aðalmenn aðeins þrír og varamenn aðeins tveir. Ekki þótti tækt að skipa fleiri en einn fulltrúa úr hverju „hverfi“ og því er niðurstaðan þessi.
Fulltrúi Hellu verður Bjarki Eiríksson og varamaður hans Guðríður Ásta Tómasdóttir
Fulltrúi Holta- og Landsveitar verður Hulda Gústafsdóttir og varamaður hennar Rebekka Stefánsdóttir
Fulltrúi fyrrum Djúpárhrepps verður Vilhjálmur A. Einarsson
Markmið íbúaráðs eru eftirfarandi:
- Að vinna að auknu íbúalýðræði með þátttöku íbúa.
- Að vera formlegur umræðuvettvangur íbúa um hagsmunamál og þjónustu sveitarfélagsins.
- Að vera vettvangur fyrir samráð íbúa, félagasamtaka og atvinnulífs við sveitarstjórn.
- Að vera vettvangur fyrir íbúa til að vera virkir þátttakendur í stefnumörkun Rangárþings ytra.
- Að senda tillögur til sveitarstjórnar um ýmsa starfsemi og þjónustu.
- Að stuðla að hverskonar samstarfi íbúa og stjórnsýslu.
- Að vera ráðgefandi fyrir stjórnsýslu sveitarfélagsins og stuðla að eflingu félagsauðs meðal íbúa.
- Að stuðla að meiri tengingu á milli stjórnkerfis sveitarfélagsins og íbúa þess og nýta þekkingu íbúanna á sínu nærumhverfi.
Erindisbréf íbúaráðs má lesa hér.
Sveitarfélagið óskar þeim til hamingju með skipunina og hlakkar til að vinna með þeim.