Menntaverðlaun Suðurlands fóru til Laugalandsskóla

Laugalandsskóli í Holtum í Rangárþingi ytra hlaut Menntaverðlaun Suðurlands 2012 fyrir framúrskarandi kennslu í framsögn og framkomu og afar góðan árangur í lestrarkeppnum undanfarinna ára. Forseti Íslands afhenti verðlaunin í síðustu viku í tengslum við hátíðarfund Fræðslunets Suðurlands.

Almennt um Laugalandskóla
Laugalandsskóli var settur í fyrsta sinn þann 9. desember 1958 og tók til starfa í nýju húsi sem þá var í smíðum. Þetta var tímamótaviðburður í skólasögu sveitarfélaganna þriggja sem að skólanum stóðu, Ása-, Holta- og Landmannahreppa. Fyrstu 10 starfsár skólans voru nemendur í heimavist en síðla árs 1968 var ákveðið að taka upp daglegan akstur með nemendur úr og  í skóla og leggja heimavistarhald niður. Þetta fyrirkomulag hefur síðan verið við Laugalandsskóla. Að undangenginni íbúakosningu árið 2002 sameinuðust Holta- og Landsveit og Djúpárhreppur og Rangárvallahreppur í eitt sveitarfélag, Rangárþing ytra. Síðan þá hefur hið nýja sameinaða sveitarfélag ásamt Ásahreppi staðið að rekstri Laugalandsskóla. Í dag eru 72 nemendur við skólann en fjöldi nemenda hefur sveiflast talsvert á milli ára. Nemendum hefur fækkað nokkuð undanfarin ár en útlit er fyrir að þeim fjölgi aftur á komandi árum.

Þátttaka Laugalandsskóla í Stóru – Upplestrarkeppninni
Laugalandsskóli hefur tekið þátt í Stóru upplestrarkeppninni undanfarin 11 ár og unnið keppnina allar götur síðan ef undan er skilið fyrsta árið. Auk þess hafa nemendur við skólann löngum skipað sér í annað og/eða þriðja sætið í keppninni.

Hvað er það sem gerir Laugalandsskóla svona sterkan í framsögn og framkomu nemenda?
Frammistaða nemenda í Stóru upplestrarkeppninni er afrakstur af skipulegu starfi kennara, markvissri þjálfun nemenda og langri hefð fyrir vönduðum upplestri og sviðsframkomu á skólaskemmtunum.

Hvaða þýðingu hafa þessi verðlaun fyrir Laugalandsskóla?
"Þessi verðlaun eru ánægjuleg viðurkenning á því starfi sem fram fer í skólanum, dugnaði og metnaði stjórnenda og kennara við skólann og síðast en ekki síst frábærri frammistöðu þeirra nemenda sem tekið hafa þátt í Stóru upplestrarkeppninni fyrir hönd skólans", sagði Kolbrún Sigþórsdóttir, starfandi skólastjóri.


* frétt tekin af www.dfs.is

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?