Mikil gleði ríkti á leikskólanum Heklukoti í morgun þegar Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein hjá Landvernd afhenti leikskólanum Grænfánann í fimmta sinn. Börnin á leikskólanum voru með fána sem þau höfðu sjálf gert úr trjágreinum og því efni sem þau fundu og gátu endurunnið. Sungu þau síðan nokkur lög í tilefni dagsins sem þau voru búin að æfa.
Mynd: Mikið fjör var í dag hjá krökkunum á Heklukoti.
Mynd: Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstjóri Skóla á grænni grein.
Síðustu tvö ár hafa verið viðburðarík og skemmtileg í leikskólanum Heklukoti, leikskólinn hefur aðallega verið að vinna með þemun hnattrænt jafnrétti og lýðheilsa. Ekki hefur verið unnið markvisst með eitt ákveðið þema, heldur hefur þessum tveimur verið blandað saman á mjög skemmtilegan hátt og gert jafn hátt undir höfði.
Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefum grænfánans. Að jafnaði tekur sú vinna tvö ár. Þegar skóli hefur stigið skrefin sjö og náð markmiðum sínum má sækja um fá afhentan grænfána.
Skrefin sjö eru:
1. Umhverfisnefnd
2. Mat á stöðu umhverfismála
3. Áætlun um aðgerðir og markmið
4. Eftirlit og endurmat
5. Námsefnisgerð og tenging við aðalnámskrá
6. Að upplýsa og fá aðra með
7. Umhverfissáttmáli
Þegar skrefin sjö hafa verið stigin getur skóli sótt um að fá Grænfánann afhentan. Það er gert með því að fylla út umsóknareyðublað og skila inn greinargerð þar sem útlistað er hvernig skrefin sjö voru stigin. Skýrslu Heklukots má finna hér.