Ég tek við sem hamingjuráðherra Rangárþings ytra af Sögu Sigurðardóttur.
Markaðs- og kynningarfulltrúar sveitarfélaga á Suðurlandi hafa gengið í þetta hlutverk að beiðni Hamingjulestarinnar, verkefni SASS, með sannri ánægju.
Ég heiti Eiríkur Vilhelm Sigurðarson og er uppalinn í Vík í Mýrdal, fæddur á því herrans ári 1989. Ég hef búið í Rangárþingi ytra frá árinu 2014, fyrst á Hellu en nú í Árbæjarhjáleigu 2. Ég er giftur Heklu Katharínu Kristinsdóttur og eigum við saman tvö börn, Áslaugu Maríu (3ára) og Vilhelm Bjart (5ára). Ég vinn sem Markaðs- og kynningarfulltrúi hjá Rangárþingi ytra.
Mín helstu áhugamál eru náttúran, matargerð og veiðar.
Hvert er þitt lífsmottó?
Ég hef nú ekki sett mér nein lífsmottó en verður oft hugsað til góðrar frænku minnar sem segir oft þegar maður er kominn í algjörar ógöngur „skiptir þetta raunverulega máli?“. Það getur oft róað hugann. Svo rakst ég á skemmtilega tilvitnun úr Sjálfstæðu fólki eftir Halldór Laxness “Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer allt einhvernveginn, þótt margur efist um það á tímabili.” Þetta einhvernveginn með góðum undirbúningi vill oft fara eins og stefnt var á.
Hvað er hamingja fyrir þér?
Hamingja er að gefa af sér, að ná árangri, að gleðjast og gleðja.
Hvar líður þér best?
Með fjölskyldu og vinum, heima og í náttúrunni, hvort sem það er á Landmannaafrétti, í Veiðivötnum, fjörunni í Vík í Mýrdal eða annarsstaðar.
Hvað fær þig til að hlægja?
Það er rosalega gaman að vera með skemmtilegu fólki því skemmtilegt fólk fær mig til að hlægja. Það er reyndar algjör undantekning að ég hitti annað en skemmtilegt fólk.
Hamingjulestin er eitt af áhersluverkefnum Sóknaráætlunar Suðurlands en eitt af markmiðum hennar er að auka hamingju Sunnlendinga um 5% fyrir árið 2025.
Einskonar regnhlíf yfir fræðslu og verkefni sem hafa það að markmiði að stuðla að geðheilbrigði sem leiðir til aukinnar hamingju og vellíðan meðal íbúa á Suðurlandi.
Með það markmið að ná til sem flestra en þó með ólíkum áherslum og verkefnum, allt eftir því hvað hentar hverjum hóp.
Fleiri fréttir og umfjallanir um fyrirtæki í Rangárþingi ytra má finna í nýjasta fréttabréfi sveitarfélagsins: https://www.ry.is/is/frettir/frettabref-mars-2021