Grunnskólinn á Hellu hlaut Landgræðsluverðlaunin

Umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, veitti landgræðsluverðlaunin í Gunnarsholti í sl. viku. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum. 

Eftirtaldir húti landgræðsluverðlaunin að þessu sinni: Ari Trausti Guðmundsson og Valdimar Leifsson, Grunnskólinn á Hellu, Uppgræðslufélag Fljótshlíðar og Hvolsskóli.

Fulltrúar grænfánanefndar í 5.-8.  bekk 2014-2016 tóku á móti verðlaununum f.h. Grunnskólans á Hellu ásamt skólastjóra og tveim kennurum sem sitja í grænfánanefnd.  Við athöfnina komu einnig fram tveir nemendur Tónlistarskóla Rangæinga og var annar þeirra úr Grunnskólanum á Hellu.

Nemendur Grunnskólans á Hellu hafa frá árinu 1996 plantað trjám í Melaskóg á Rangárvallasandi.  Þar var þá eyðisandur og skógræktin hófst í svonefndri Bláubrekku. Skólinn tekur þátt í Grænfánaverkefni Landverndar, Skólar á grænni grein, fer í úttekt í vor og flaggar að öllum líkindum grænfánanum í fjórða sinn í framhaldi af því. Þá er unnið með Landgræðslunni og Landvernd að vistheimtarverkefni á örfoka landi, sem felur í sér fræðslu og rannsóknir.  Skólinn miðar starf sitt mikið við útivist og náttúru m.a. með föstum kennslustundum í útivist í hverri viku.  Nemendur og starfsmenn hafa gróðursett ýmsar trjátegundir og gert tilraunir með ræktun eplatrjáa og annarra aldintrjáa.

Nánar má lesa um verðlaunaafhendinguna á heimasíðu Landgræðslunnar www.land.is og á heimasíðu Grunnskólans á Hellu www.grhella.is

fleiri myndir má sjá á fésbókarsíðu sveitarfélagsins 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?