Kjartan Már Hallkelsson framkvæmdastjóri GYM heilsu, sem rekur líkamsræktina á Hellu og Þórhallur Svavarsson forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar hjá Rangárþingi ytra undirrituðu samning í morgun sem markar upphaf á verulegum endurbótum á aðstöðu til heilsuræktar í sveitarfélaginu. Nú hefur verið hafist handa við að flytja smíðastofu Grunnskólans á Hellu úr neðri hæð sundlaugarbyggingar í nýinnréttað s.k. Sel við skólann. Við þessar breytingar verður heilsuræktin stækkuð um nálægt 40 m2 sem gjörbreytir allri aðstöðunni. Samhliða þessu verða tæki endurnýjuð og að sögn Kjartans framkvæmdastjóra GYM heilsu verður allt það nýjasta og vinsælasta í þeim efnum sett upp auk þess sem viðeigandi gólfefni verða lögð og loftræsting bætt. Þetta er fagnaðarefni fyrir notendur heilsuræktarinnar og hvatning til þeirra sem minna hafa sýnt sig á slíkum stöðum að nýta tækifærið og láta nú ljós sitt skína í ræktinni!