Í síðustu viku kom Kristborg Þórsdóttir fornleifafræðingur færandi hendi með tveggja binda áfangaskýrslu um næstsíðasta áfanga fornleifaskráningu í sveitarfélaginu. Í henni er fjallað um minjar á jörðum í efri hluta Landsveitar á um 700 síðum. Hægt er að nálgast skýrslurnar á heimasíðu sveitarfélagsins hér:
Aðalskráningu fornminja í Rangárþingi ytra er lokið og meðal þess sem komið hefur í ljós í þeirri skráningu er fjöldi áður óþekktra bæjarstæða frá víkingaöld. Má sem dæmi nefna tóftaþyrpinguna í landi Árbakka, en umfjöllun um hana var í Morgunblaðinu fyrir nokkrum vikum, auk víkingaaldarbæjarstæða í landi Lunansholts og Holtsmúla (nú Skeiðvalla). Þessar fornu minjar eru hluti af mörgum þúsundum minja sem skráðar voru í sveitarfélaginu af Fornleifastofnun Íslands á árunum 2006-2015. Við þetta tækifæri kom fram í máli Kristborgar og sveitarstjóra að við getum verið mjög stolt af því að hafa lokið þessari fyrstu umferð fornleifaskráningar sem er undirstaða þess að hægt sé að vinna frekari rannsóknir á menningararfi svæðisins og stuðlað að varðveislu hans fyrir komandi kynslóðir.
Mynd: Kort sem sýnir dreifingu minjastaða í Rangárþingi ytra
Mynd: Gengið meðfram forngarði í landi Árbæjarhellis
Mynd: Topphlaðin fjárborg í landi Húsagarðs