Ráðstefnan verður haldin í Gunnarsholti á Rangárvöllum 20. mars og þar verður fjallað vítt og breitt um lífrænan úrgang en ekki síst um möguleika til nýtingar hans, meðal annars til landgræðslu, skógræktar og annarrar ræktunar. Að ráðstefnunni standa Sorpurðun Vesturlands, Molta ehf., Samband íslenskra sveitarfélag og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga ásamt Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, verður ráðstefnustjóri.
Viðfangsefni ráðstefnunnar er nýting þeirra verðmæta sem felast í lífrænum úrgangi. Fjallað verður um hugtökin úrgang og hráefni og farið yfir stöðuna hérlendis, hvaða farvegir eru fyrir lífrænan úrgang og um lausnir sem notaðar eru á ýmsum stöðum á landinu. Rætt verður um lög og reglugerðir í nútíð og framtíð, þróun vinnslutækni og nýtingar, stefnumótun hjá ríki og sveitarfélögum og hver skuli draga vagninn í þessum efnum. Sömuleiðis verða sagðar reynslusögur af ræktun með hjálp lífræns úrgangs, lífrænni ræktun í Skaftholti í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, notkun kjötmjöls í Hekluskógum og landgræðslu með kjötmjöli og gor.
Nánar má lesa um ráðstefnuna og sjá dagskrá hennar með því að smella.
Sjá einnig frétt á vef Skógræktar ríkisins http://www.skogur.is/um-skograekt-rikisins/frettir/nr/2434