Þegar snjóar verður snjómokstur á allra vörum enda hefur sú þjónusta mikil áhrif á líf okkar að vetri til. Viðmiðunarreglur um snjómokstur hafa verið í gildi frá árinu 2019. Nú er útlit fyrir snjókomu á gamlársdag og er þá forgangsatriði að halda héraðs- og tengivegum opnum meðan verður leyfir.
Meginmarkmið snjómoksturs og hálkueyðingar er að koma börnum í skólann á réttum tíma og greiða um leið akstursleiðir þeirra sem þurfa til og frá vinnu og minnka þau óþægindi sem snjór og ís veldur einstaklingum, fyrirtækjum og skólahaldi. Snjómokstri og hálkueyðingu í dreifbýli er stjórnað af tveimur aðilum; Vegagerðinni og Rangárþingi ytra. Útboð Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins á snjómokstri miðar við tímabilið 1. nóvember til 15. apríl ár hvert. Snjómokstri og hálkueyðingu í þéttbýli er stjórnað af Rangárþingi ytra.
Þjóðvegir
Vegagerðin sér um allan mokstur á þjóðveginum sem liggur um sveitarfélagið.
Héraðs- og tengivegir
Vegagerðin hefur skilgreint þá vegi þar sem heimilt er að beita helmingamokstursreglu. Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar (sjá www.vegagerdin.is) er heimilt að moka þessa vegi með kostnaðarþátttöku Vegagerðarinnar að hámarki þrisvar sinnum í viku, meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Miðað er við að búið sé að opna allar aðalleiðir virka daga kl. 7 að morgni þá daga sem mokað er. Kostnaður við snjómokstur þessara vega skiptist til helminga á Vegagerð og sveitarfélagið. Komi til að moka þurfi helmingamokstur oftar en þrisvar í viku verður að liggja fyrir samþykki Vegagerðarinnar á greiðslu helmings kostnaðar á móti Rangárþingi ytra. Vegagerðin sér um þann mokstur að höfðu samráði við forstöðumann Þjónustumiðstöðvar Rangárþings ytra. Samkvæmt reglum Vegagerðarinnar er einnig heimilt að moka sérstaklega vegna jarðarfara og greiðir Vegagerðin þann kostnað að fullu.
Heimreiðar í dreifbýli
Heimreiðar í dreifbýli eru mokaðar allt að þrisvar sinnum í viku þegar þörf er á og meðan fært þykir vegna veðráttu og snjóþyngsla. Forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Rangárþings ytra metur þörf á mokstri. Einungis eru mokaðar heimreiðar að bæjum þar sem er föst búseta og viðkomandi íbúar með skráð lögheimili. Sveitarfélagið annast ekki mokstur heimreiða að sumarhúsum og sveitarfélagið greiðir ekki snjómokstur eða hálkuvarnir inni á sumarhúsasvæðum.
Þéttbýli
Götur í þéttbýli eru mokaðar, svo og bílastæði við stofnanir sveitarfélagsins. Sveitarfélagið sér ekki um mokstur á heimkeyrslum að fyrirtækjum eða íbúðarhúsum í þéttbýli.
Önnur atriði
Aðilar sem taka upp fasta búsetu og skrá lögheimili á stöðum í dreifbýli sem ekki hefur verið mokað að geta haft samband við Þjónustumiðstöð Rangárþings ytra varðandi mokstur. Hafa ber í huga að þessar reglur eru settar til viðmiðunar og ber að líta á þær sem slíkar. Getur tíðarfar og snjóþyngsli raskað áformum um mokstur. Hvorki Vegagerðin né Rangárþing ytra bera ábyrgð á tjóni sem kann að verða, takist ekki að framfylgja viðmiðunarreglunum. Íbúar eru hvattir til að láta Þjónustumiðstöð Rangárþings ytra vita í síma 4875284 þegar ófært er.
Allar nánari upplýsingar um snjómokstur í Rangárþingi ytra utan þjóðvega eru veittar hjá þjónustumiðstöð Rangárþings ytra á netfangingu ry@ry.is eða í s: 4875284.
Upplýsingar um færð á vegum eru aðgengilegar á www.vegagerdin.is