Þann 22. maí sl. hófst hreinsunarátak í Rangárvallasýslu undir forystu Sorpstöðvar Rangárvallasýslu eins og hefur verið getið. Átakið stendur til 15. júní og hefur gámum verður komið fyrir víðs vegar um sýsluna; Skógum, Heimalandi, A-Landeyjum, V-Landeyjum, Fljótshlíð, Bakkabæjum, Rangárvöllum (vegamót Gunnarsholtsvegar og Þingskálavegar), Þykkvabæ, Hellu og Landvegamótum. Boðið er uppá gáma undir málma, timbur og garðaúrgang (trjáklippur, gróður og mold) og ákaflega mikilvægt er að rétt sé flokkað í gámana. Ef misbrestur verður á því er engin leið önnur en að fjarlægja gámana áður en hreinsunarátakinu lýkur og eru ástæðurnar bæði umhverfislegar og ekki síst fjárhagslegar. Það er ekki víst að allir átti sig á en fjárhagur sveitarfélaganna tengist beint fjárhag heimila og fasteignaeigenda í sýslunni. Aukin útgjöld sveitarfélaganna vegna allra málaflokka kalla á hærri skatta og hærri þjónustugjöld. Íbúar og hagsmunaaðilar geta með beinu móti unnið móti þessu og ein leiðin til þess er að taka þátt í flokkun úrgangs.
Sveitarfélögum ber, skv. lögum um meðhöndlun úrgangs, að innheimta gjald fyrir förgun úrgangs. Gjald skal innheimta fyrir öllum kostnaði og undir það fellur m.a. hreinsunarátakið sem nú er í gangi. Íbúar og fasteignaeigendur geta nú með beinum hætti tekið þátt í lækkun framtíðarsorpgjalda og tryggt framtíðarþjónustu með fullkominni flokkun í gámana. 30 gámar hafa verið settir út fyrir hreinsunarátakið og er það mikill fjöldi gáma og þjónustan við þá dýr. Gera má ráð fyrir því að aukinn kostnaður við hvern gám sem ekki er flokkað fullkomlega í sé á bilinu 80-115 þúsund krónur. Þetta þýðir sem dæmi ef hver gámur er einungis fylltur einu sinni og ekki er í hann flokkað verður hreinsunarátakið þremur milljónum króna dýrara en ef fullkomlega er flokkað í gámana.
Ef góð þátttaka verður í átakinu má gera ráð fyrir mun fleiri losunum og á sama hátt hækkar sú krónutala sem fer í óþarfa kostnað. Slíkur kostnaðarauki mun hafa það í för með sér að hækka verður þjónustugjöld í málaflokknum eða skerða þjónustu.
Flokkun er ekki bara bull, hún er umhverfisvæn og hagkvæm. Tökum nú höndum saman, látum jákvæðnina vera leiðavísir, virðum umhverfið og spörum fyrir okkur öll.
Ísólfur Gylfi Pálmson,
Gunnsteinn Ómarsson,
Eydís Indriðadóttir.