Þann 22. maí sl. hófst hreinsunarátak í Rangárvallasýslu undir forystu Sorpstöðvar Rangárvallasýslu sem er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna þriggja í sýslunni. Átakið stendur til 15. júní og við stefnum að því að sveitarfélögin hafi tekið stakkaskiptum fyrir þjóðhátíðardaginn.
Þetta er tækifæri fyrir alla til þess að losa sig við uppsafnað rusl og hvati til samstillts átaks, þar sem við hvetjum hvert annað til þess að taka til hendinni og taka til í kringum okkur. Gámum verður komið fyrir víðs vegar og eru íbúar hvattir til að kynna sér staðsetningu þeirra. Rangárvallasýsla er eitt mesta matvælaframleiðsluhérað landsins en ferðaþjónusta er einnig atvinnugrein sem sótt hefur mjög á á undanförnum árum og er nú einn mesti vaxtarsprotinn í atvinnulífinu.
Í dag er mikið talað um ímynd samfélaga, góð ímynd í matvæla- og ferðaþjónustu byggir m.a. á snyrtimennska. Nú er tækifæri til þess taka til hendinni , nýta sér þá gáma sem komið hefur verið fyrir og menn eru einnig hvattir til þess að flokka í gámana. Sorpflokkun er engin sérstök uppfinning sveitarstjórnanna hér í sýslunni. Mörg sveitarfélög hafa orðið talsverða reynslu í þessum efnum. Það er deginum ljósara að allir þeir sem hafa lagt af stað í þessa vegferð vita að þetta er svolítið strembið til þess að byrja með vegna þess að of margir eiga erfitt með að flokka og fara eftir settum reglum. Fleiri gera sér þó grein fyrir því að þetta er ekki flókið ferli og standa sig afbragðsvel hvað þetta varðar. Grunn hugmynd flokkunar er endurnýting. Það er rauninni verið að gera verðmæti úr því sem áður var hent eða urðað. Þetta er spurning um hugarfar, við eigum að vera hvetjandi og styðja hvert annað og endilega að ýta við þeim sem um áraraðir hafa verið hálfgerðir slóðar og hrósa hinum sem ganga vel um.
Tökum höndum saman, látum jákvæðnina vera leiðavísir. Við vitum að sýslan státar af fögru landslagi, látum okkar hlut ekki skerða þá fegurð. Það er heldur ekki úr vegi að draga fram málningu og málningarpensla í fegrunarátakinu. Stefnt er að hreinsunarátaki að vori og hausti ár hvert.
Ísólfur Gylfi Pálmson, Gunnsteinn Ómarsson og Eydís Indriðadóttir.