Á fundi sveitarstjórnar Rangárþings ytra þann 14. desember s.l. var samþykkt eftirfarandi bókun um fjárframlög til lögreglunnar á Suðurlandi:
Sveitarstjórn Rangárþings ytra lýsir yfir vonbrigðum með að skv. fjárlögum ársins 2017 sé lögð niður fjárframlög til eflingar löggæslu í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi, m.t.t. öryggis íbúa og ferðamanna. Um er að ræða lækkun sem nemur ríflega 10% heildar fjárheimilda lögreglunnar á Suðurlandi eða um kr. 102 milljónir. Umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi er mjög stórt og víðfemt. Þar eru vinsælustu ferðamannastaðir landsins í byggð og óbyggð. Til grundvallar þessara fjárheimilda frá fyrra ári lá vönduð undirbúningsvinna m.t.t. fjölgunar ferðamanna og verulega aukinnar umferðar. Þegar litið er til aukinnar umferðar og fjölgunar slysa er þessi niðurstaða með öllu óásættanleg enda skerðist verulega hvorutveggja, öryggi íbúa umdæmisins og annarra vegfarenda.