Brynja Ósk Rúnarsdóttir stendur fyrir styrktarviðburði til styrktar Sigurhæðum, tónleikum með Lay Low og opnun á Ljósmyndasýningu þann 14. maí að Hólavangi 18 á Hellu.
Úr frétt af Sunnlenska.is.
Hárið rakað af með viðhöfn í garðinum
Söfnunin hófst, 20. mars og stendur til 14. maí. „Það er svo magnað að söfnunin hófst 20. mars. Ég var alltaf með þessa dagsetningu í huga því að þá eru vorjafndægur og vorið var tíminn hennar mömmu. Tuttugasta mars eru líka tvö ár síðan þær opnuðu hjá Sigurhæðum en það er algjör tilviljun. Söfnunin verður svo til 14. maí, því að þá er mæðradagurinn. Þá verður viðhöfn í garðinum mínum á Hellu þegar hárið verður tekið af mér. Um leið afhjúpa ég ljósmyndasýningu sem ég er búin að sækja um styrk fyrir. Hluti af ágóðanum fyrir sýningunni mun renna til Sigurhæða.“
Brynja Ósk kveðst vera spennt fyrir því að raka af sér hárið. „Þetta er líka partur af endurfæðingunni minni – ég var hárlaus þegar ég fæddist. Ég þarf að upplifa það aftur, að vera hárlaus og svo þegar ég fékk hár þegar ég var lítil þá var það hvítt og ég hugsa að það verði alveg eins núna,“ segir Brynja og hlær.
Endurfæðing í Mexíkó
Ljósmyndirnar sem verða til sýnis í garðinum hennar Brynju Óskar voru teknar af Stefáni Ívars. Myndirnar eru allar af Brynju Ósk þegar hún dvaldist í Mexíkó í 37 daga síðastliðið haust. Dvöl Brynju í Mexíkó var mikið andlegt ferðalag sem hún lýsir sem endurfæðingu. Í Mexíkó synti Brynja Ósk í heitum sjó, var mikið í kristalvötnum og náði að vinna mjög mikið úr sínum áföllum – þar af voru átta dagar af mjög djúpri sjálfsvinnu. „Frumefnin fjögur – jörð, vatn, loft og eldur – hjálpuðu mér mikið.“
„Þetta eru mjög persónulegar myndir. Húsið mitt er númer átján og verða átján myndir til sýnis. Verkið heitir Óður til móður. Og það er ekki bara mamma heldur móðirin,“ segir Brynja Ósk að lokum.
Þeir sem vilja heita á Brynju Ósk og leggja málefninu lið geta lagt inn á reikning 0308-13-1093, kennitala: 240769 4419. Verndari reikningsins er Sigríður Dröfn Björgvinsdóttir.
Það eru allir velkomnir þann 14. maí og kostar 4.900 kr.