Markaðsstofur landshlutanna héldu árlega ferðaþjónustuviku 16.–18. janúar s.l. sem endaði með fjölmennu Mannamóti í Kórnum í Kópavogi.
Vaxandi áhugi og hugur í fólki
Mannamót er viðburður helgaður ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Þar gefst fyrirtækjum á landsbyggðinni tækifæri til að kynna vörur sínar og þjónustu fyrir ferðaþjónustuaðilum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Markmiðið er að skapa vettvang til tengsla innan ferðaþjónustunnar.
Þetta var tíunda árið sem Mannamót voru haldin og hefur viðburðurinn vaxið ár frá ári. Sýningin í ár var einkar glæsileg og fjöldi sýnenda jafnt sem gesta aldrei meiri, enda þurfti nánast að olnboga sig í gegnum þvöguna þegar mest var.
Hvarvetna mættu gestum brosandi andlit og greinilega hugur í fólki fyrir komandi ferðaþjónustuári.
Suðurlandið áberandi og fjölbreytt
Sýningunni er skipt upp eftir landshlutum og voru hundruð fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum mætt til að kynna sína starfsemi. Fulltrúar frá Suðurlandi voru eitthvað yfir sjötíu talsins og áttu Rangárþingin bæði glæsilega fulltrúa sem tóku vel á móti gestum.
Meðal sýnenda af svæðinu voru Hellarnir við Hellu, Buggy X-TREME, Stracta hótel, Landhótel, Keldur á Rangárvöllum, Icelandic Horseworld á Skeiðvöllum, Southcoast Adventure, Hótel Rangá, Midgard á Hvolsvelli og Hótel Fljótshlíð.
Áhugasöm geta kynnt sér málið nánar hér.