Í fyrri úthlutun Uppbyggingarsjóðs Suðurlands árið 2016 bárust sjóðnum 137 umsóknir. Styrkur var veittur 87 verkefnum og er heildar fjárhæð styrkveitinganna um 38 milljónir. Úthlutað var um 19 mkr. til 56 menningarverkefna og um 19 mkr. til 31 nýsköpunarverkefna.
Uppbyggingarsjóður Suðurlands er samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styrkja menningar- og nýsköpunarverkefni í landshlutanum. Við mat á umsóknum vísast til úthlutunarreglna og viðmiða um mat á umsóknum sem finna má á heimasíðu SASS. Verkefnastjórn Sóknaráætlunar á Suðurlandi fer með hlutverk úthlutunarnefndar en fagráð á sviði menningarmála annars vegar og nýsköpunar hins vegar, skila tillögum til verkefnastjórnar. Umsjón og ábyrgð Uppbyggingarsjóðsins er hjá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.
Gaman er að segja frá því að átta verkefni í Rangárþingi ytra hlutu styrk.
Aðgengi og umhverfi að Hellnahelli – frumhönnun 1.000.000 kr
Að Hellum í landsveit er stærsti manngerði hellir á Íslandi. Þar mun verða farið í uppbyggingu svo hægt sé að taka á móti ferðamönnum og með því styrkist ferðaþjónusta í Rangárþingi ytra, afþreyingarmöguleikum fjölgar.
Ónumið land – tækifæri suðurstrandar frá Markarfljóti að Þjórsá – 1.000.000 kr
Frá Markarfljóti að Þjórsá er gríðarlegt landflæmi sem ekki er nýtt að neinu leyti. Þetta er það svæði sem næst liggur sjónum og er að mestu leyti sandur. Í þessu verkefni á að kortleggja eignarhald á svæðinu og kanna hvaða möguleika svæðið býður uppá. Hugmynd er um að stofnaður verði svæðisgarður.
Þjálfun á þjónustuhundum – 500.000 kr
Þjálfun á þjónustuhundum.
Spunasystur – 300.000 kr
Sýning um ullarvinnslu og ull af íslensku kindinni. Spunasystur er hópur kvenna sem hittist hálfsmánaðarlega á Brúarlundi í Landsveit og vinnur úr íslenskri ull.
Leikfélag Rangæinga – leiksýning haust 2016 – 250.000 kr
Styrkur til þess að setja upp leiksýningu haustið 2016.
Glæsileiki gangtegundanna – 200.000 kr
Uppsetning listaverka á Hellu. Listaverkin eru fjórir hestar í fullri stærð og eru þeir á brokki, stökki, skeiði og tölti.
Sumar í Odda – 200.000 kr
Tónleikaröð í Odda á Rangárvöllum sumarið 2016.
Hringur syngur á Suðurlandi – 100.000 kr
Tónleikaferðalag Hrings – kórs eldriborgara um Suðurland.
Það er virkilega ánægjulegt að sjá hversu öflugir íbúar Rangárþings ytra eru í að koma af stað verkefnum og það verður spennandi að sjá hvað verður úr þessum verkefnum í framtíðinni og eins afrakstur menningarverkefnanna á þessu ári. Auglýst verður eftir styrkumsóknum í uppbyggingarsjóð í haust að nýju og því got að nýta sumarið til þess að innramma hugmyndir. Upplýsingar um uppbyggingarsjóð suðurlands má finna hér.