Auglýsing um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna Hvammsvirkjunar

Auglýsing um útgáfu framkvæmdaleyfis í Rangárþingi Ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi vegna Hvammsvirkjunar

 

Samkvæmt 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er hér auglýst útgáfa framkvæmdaleyfis vegna Hvammsvirkjunar:

Sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykktu á fundum sínum þann 16. og 24. október 2024 útgáfu framkvæmdaleyfa vegna framkvæmda við uppbyggingu Hvammsvirkjunar sem staðsett verður í Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Í framkvæmdinni felst uppbygging á virkjun Þjórsár norður af Skarðsfjalli. Inntakslón hennar, Hagalón, verður í farvegi Þjórsár norður af Skarðsfjalli. Lónið verður í um 116 m y.s. og um 4 km2 að stærð og rúmmál lónsins verður um 13,2 milljón m3. Stöðvarhús verður að mestu leyti neðanjarðar við norðurenda Skarðsfjalls, í landi Hvamms 1 í Landsveit. Fyrirhuguð Hvammsvirkjun er vatnsaflsvirkjun staðsett á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár þar sem í dag eru sjö vatnsaflsstöðvar og verður virkjunin áttunda og neðsta stöðin. Hvammsvirkjun mun nýta allt að 352 m3/s rennsli og 32 m fall Þjórsár á um 9 km kafla frá svokölluðu Yrjaskeri, rétt ofan við bæinn Haga, og niður fyrir Ölmóðsey, austan við Þjórsárholt. Virkjunin nýtir miðlað rennsli Þjórsár frá lónunum ofar á vatnasviðinu. Flest mannvirki virkjunarinnar verða staðsett innan Rangárþings ytra en virkjunarsvæðið er staðsett innan beggja sveitarfélaganna. Gert er ráð fyrir að afl virkjunar verði 95 MW og árleg orkuvinnsla um 740 GWh. Framkvæmdaleyfin taka til allra þeirra framkvæmda við Hvammsvirkjun sem fyrirhugaðar eru innan sveitarfélagamarka Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps á vegum Landsvirkjunar, þó ekki til þeirra framkvæmda sem teljast háðar útgáfu byggingarleyfa. Umfjöllun og upplýsingar um framkvæmdina má nálgast hér https://www.landsvirkjun.is/hvammsvirkjun og á www.skipulagsgatt.is .

Fylgiskjöl með framkvæmdaleyfi:

Útgefið framkvæmdaleyfi

  1. Umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 14. desember 2022.
  2. Greinargerð með umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 13. september 2024.
  3. Teikningar og yfirlitsmyndir af framkvæmd.
  4. Deiliskipulag Hvammsvirkjunar, greinargerð, umhverfismatsskýrsla og uppdrættir.
  5. Matsskýrsla vegna Hvammsvirkjunar, dags. apríl 2003.
  6. Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 19. ágúst 2003.
  7. Úrskurður umhverfisráðuneytis, dags. 27. apríl 2004.
  8. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu um Hvammsvirkjun að hluta, dags. 16. desember 2015.
  9. Matsskýrsla – endurskoðun, dags. október 2017.
  10. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar, dags. 12. mars 2018.
  11. Leyfi Minjastofnunar Íslands, dags. 26. nóvember 2021.
  12. Leyfi Fiskistofu, dags. 14. júlí 2022.
  13. Virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar í Þjórsá, dags. 12. september 2024, ásamt fylgiskjölum.
  14. Heimild Umhverfisstofnunar til breytinga á vatnshlotinu Þjórsá 1, dags. 9. apríl 2024.
  15. Greinargerð Rangárþings ytra og Skeiða- og Gnúpverjahrepps vegna samþykkis og útgáfu framkvæmdaleyfis í samræmi við 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, dags. 14. júní 2023, uppfærð 4. október 2024.

 

Ákvörðun sveitarstjórna um samþykkt framkvæmdaleyfis er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og er kærufrestur 1 mánuður frá því að auglýsingu um útgáfu framkvæmdaleyfisins birtist í Lögbirtingarblaði. Nánari upplýsingar má finna á heimasíðunni www.uua.is

 

Fh. Rangárþings ytra

Haraldur Birgir Haraldsson

 

Fh. Skeiða- og Gnúpverjahrepps

Vigfús Þór Hróbjartsson

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?