Íbúafundur sem sveitarstjórn stóð fyrir s.l. laugardagsmorgun á Laugalandi tókst vel og mikill hugur í fólki að nýta tækifærið sem fylgir lagningu ljósleiðara um allt sveitarfélagið á næstu misserum. Margir fundarmenn notuðu strax tækifærið og fylltu út umsókn á staðnum um lagningu ljósleiðara fyrir sína bæi. Umsóknareyðublöð má nálgast hér á heimsíðunni.
Fundurinn var vel sóttur og sérstakir heiðursgestir voru alþingismennirnir Haraldur Benediktsson formaður fjarskiptasjóðs og Páll J. Pálsson forsprakkar verkefnisins "Ísland ljóstengt". Guðmundur Daníelsson verkefnisstjóri ljósleiðaraverkefnis Rangárþings ytra flutti yfirlitserindi um skipulag og áætlanir verkefnisins og sat síðan fyrir svörum með Ágústi Sigurðssyni sveitarstjóra. Fundarstjóri var Engilbert Olgeirsson formaður samgöngu- og fjarskiptanefndar Rangárþings ytra. Allar upplýsingar um verkefnið munu birtast hér á heimasíðunnni undir hnappinum Ljósleiðari Rangárljós á forsíðu.