Mynd: Jens Einarsson
Fiskur á stöng
Í Rangárþingi ytra er víða hægt að veiða fisk á stöng, bæði í ám og vötnum. Nokkrar frábærar laxveiðiár eru á svæðinu, en bleikja og urriði eru algengari. Þekktasti veiðistaðurinn eru án efa hin frægu Veiðivötn, sem eru á hálendinu sunnan við Þórisvatn. Þar er bæði mikil veiði og mikil náttúrufegurð. En það eru fleiri fallegir og fengsælir veiðistaðir í Rangárþingi ytra og hér á eftir er stiklað á þeim helstu. Nánari upplýsingar um staðsetningu veiðistaðanna og veiðileyfi er meðal annars að finna á eftirtöldum vefsíðum:
Laxveiðiár:
Ytri-Rangá rennur í gegnum Hellu. Hún er um 60 km löng og á upptök sín í Sölvahrauni. Margir lækir renna í Ytri Rangá, til að mynda Galtalækur, Geldingalækur og Hróarslækur. Neðsti partur árinnar heitir Hólsá, fyrir neðan ármótin þar sem Ytri-Rangá og Þverá sameinast.
Hólsá – Vesturbakki er þekkt veiðisvæði neðst í vatnakerfi Rangánna. Ekið er niður Þykkvabæjarveg áður en komið er inn á Hellu að vestan. Ekkert veiðihús fylgir veiðileyfum en mikið framboð er af gistingu á svæðinu. Við „Vesturbakkann“ er frábær veiðivon því allur lax sem gengur upp í Ytri- og Eystri-Rangár gengur þar upp.
Eystri-Rangá meðalveiði síðustu fimm ára í ánni er 4300 laxar á ári en sumarið 2020 veiddust 9070 laxar. Átak hefur verið gert í því síðustu ár að taka stórlax úr ánni í klak. Hefur það skilað þeim árangri að í Eystri Rangá er æ hærra hlutfall aflans stórlax og hefur veiðin að sama skapi aukist fyrr á tímabilinu.
Eystri Rangá er á Suðurlandi í um 100 km fjarlægð frá Reykjavík og rennur rétt vestan við Hvolsvöll. Þetta er um 60 km löng lindá sem á upptök sín við Tindafjallajökul á hálendinu. Hún er hinsvegar fiskgeng um 22 km vegalengd, eða allt að Tungufossi hjá Árgilsstöðum. Eystri Rangá sameinast Þverá um 5 km. austan við ármót Ytri Rangár og Þverár. Bróðurpartur aflans í Eystri-Rangá er sterkur smálax á bilinu 5-7 pund en á hverju ári veiðast laxar í ánni sem eru um og yfir 20 pundin.
Veiðisvæðin í ánni spanna 22 kílómetra frá ósi við Þverá upp að ólaxgengnum fossi á svæði 9. Áin býður upp á mjög fjölbreytta veiðistaði allt frá hæglíðandi breiðum út í stríðari strengi. Flestir veiðistaðir árinnar eru frábærir fluguveiðistaðir sem bjóða upp á fullkomið rennsli. Best fer á að nota tvíhendu þar sem áin er breið en á sumum stöðum er laxinn það nálægt landi að einhenda dugar vel.
Silungsveiði:
Minnivallalækur á upptök sín í Landsveit og rennur í Þjórsá um Vindásós. Aðal veiðisvæðið er rétt austan við Minni-Velli í Landssveit og austur að Skarði. Minnivallalækur á engan sinn líka í heiminum og oft kallaður paradís urriðaveiðimannsins. Kristaltært og frjósamt lindarvatnið er eitthvert allra besta búsvæði urriða sem fyrirfinnst á Íslandi. Á hverju ári veiðast urriðar sem eru um og yfir 10 pund og fjöldi fiska á bilinu 4-8 pund. Veiðihús er á staðnum.
Gíslholtsvatn er í Holtahreppi í Rangárþingi. Til að komast að vatninu er beygt inn á heiðarveg nr. 284 frá þjóðvegi nr. 1 rétt austan við Þjórsá. Tvö vötn eru á svæðinu, Eystra og Vestra- Gíslholtsvatn (Herríðarhólsvatn). Handhafar Veiðikortsins mega aðeins veiða í eystra vatninu að vestanverðu, þ.e.a.s í landi Gíslholts. Í vatninu er staðbundin bleikja og urriði. Bleikjan er öllu jöfnu nokkuð smá en urriðinn getur verið vel vænn.
Herríðarhólsvatn stendur við hliðina á Eystra Gíslholtsvatni og er oft kallað Vestra Gíslholtsvatn. Herrulækur fellur úr vatninu í Þjórsá og er oft ágæt veiði á vatnaskilunum. Í Herríðarhólsvatni er að finna bæði bleikju og urriða. Veiðileyfi er hægt að nálgast á bæjunum Herríðarhóli og Gíslholti.
Ytri Rangá urriðasvæði er efri hluti Ytri Rangár byrjar svæðið fyrir ofan Árbæjarfoss og nær upp fyrir Galtalækjarskóg. Urriðinn á þessu svæði getur orðið ógnarstór. Veitt er frá báðum bökkum í þessari ógnarstóru á með 6 stöngum á dag. Eingöngu er veitt með flugu og er alger sleppiskylda á öllum fiski.
Galtalækur er í um 35 km fjarlægð frá Hellu. Ekið er upp Landveg eða Árbæjarveg. Galtalækur rennur um ægifagurt umhverfi og sameinast Ytri Rangá, en þess má geta að Galtalækjarskógur hefur oft verið kallaður paradís fjölskyldunnar þar sem blandast einstök náttúrufegurð og aðstaða til útivistar. Í Galtalæk er eru mjög vænir urriðar, meðalvigt um 3 pund, sem gaman getur verið að egna fyrir hvort sem er með straumflugum eða litlum púpum.
Tangavatn er lítið manngert vatn skammt frá bænum Galtalæk II í Rangárvallarsýslu, í um 35 km fjarlægð frá þjóðvegi 1 ef farið er eftir þjóðvegi 26. Á Galtalæk II er eldisstöð frá fiskeldinu í Fellsmúla, þar sem hinn víðfrægi ísaldarurriði er alinn upp áður en honum er sleppt í Veiðivötn. Einnig er þar alinn fiskur af Grenlækjarstofni. Þessum fiski er sleppt í Tangavatn. Mest er um tveggja til þriggja punda fiska, en allt að 10 punda fiskar hafa veiðst í vatninu. Veiðileyfi er hægt að nálgast á Galtalæk II og þar er einnig ferðaþjónusta með tjaldstæði. Sjá hér.
Álftavatn á Rangárvallaafrétti er á hálendinu fyrir norðan Mýrdalsjökul, á milli Torfajökuls og Tindafajallajökuls. Álftavatn er við Laugaveginn, gönguleiðina á milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Við vatnið er skáli Ferðafélags Íslands. Til að komast að vatninu er ekin Fjallabaksleið syðri og síðan vegur F210. Á leiðinni eru margar óbrúaðar ár og því nauðsynlegt að vera á vel búnum bíl. Veiðileyfi er hægt að nálgast í gegnum netfangið kaldbakur@uppsveitir.is
Fellsendavatn er á hálendinu við hlið Þórisvatns í aðeins 19 km fjarlægð frá Hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum.
Tungnaá var upprunalega jökulá en hefur verið tær síðan árið 2014 vegna virkjunarframkvæmda Landsvirkjunar. Í ánni er staðbundin bleikja sem getur orðið mjög stór, allt að 10 pund. Meðalþyngd veiddra fiska er um 3 pund. Urriði er einnig í ánni.
Vötn sunnan Tungnár. Á Landmannaafrétti sunnan Tungnaár eru nokkur stöðuvötn og eru 12 þeirra leigð út til stangveiða: Vötnin eru: Blautaver, Dómadalsvatn, Eskihlíðarvatn, Frostastaðavatn, Herbjarnarfellsvatn, Hnausapollur (Bláhylur), Hrafnabjargavatn, Kýlingavötn, Lifrarfjallavatn, Ljótipollur, Löðmundarvatn og Sauðleysuvatn. Veiðileyfi eru seld í Landmannahelli og í versluninni í Landmannalaugum.
Veiðivötn liggja í 5 km breiðri og 35 km aflangri lægð sem liggur í norðaustur/suðvestur frá Norðurnámum Landmannaafréttar og að Ljósufjöllum. Veiðivötn eru án efa rómuðustu, gjöfulustu, og frægustu veiðivötn landsins og vatnasvæðið ægifagurt. Um er að ræða vatnaklasa í Landmannaafrétti sem samanstendur af allt að 50 vötnum, sem mörg hver eru fornir sprengigígar. Leyfð er veiði á flugu, spón, maðk, og makríl. Mörg veiðihús eru á staðnum sem hægt er að fá leigð, auk þess svefnpokapláss í skála og þar er stæði fyrir tjöld, tjaldvagna, og húsbíla. Nánari upplýsingar á: www.veidivotn.is
Ef einhverjir staðir hafa gleymst í þessari upptalningu, eitthvað hefur breyst eða ef óskað er eftir nánari upplýsingum er hægt að senda póst á ry@ry.is
Fleiri myndir og umfjallanir má nálgast í fréttabréfi sveitarfélagsins.