Krakkarnir í vinnuskólanum hafa verið öflugir við að setja niður trén frá Garðaþjónustu Gylfa.
Krakkarnir í vinnuskólanum hafa verið öflugir við að setja niður trén frá Garðaþjónustu Gylfa.

Undanfarna mánuði hefur verið unnið að því að undirbúa uppbyggingu útivistarsvæðis í landi Ness á Hellu. Þar fyrir er myndarlegur trjálundur sem skiptist í þrjú svæði og var hann gróðursettur af framsýnu fólki á sínum tíma. Tilgangur þessa trjálundar hefur alla tíð verið sá að efla útivist íbúa sveitarfélagsins. Í vetur hefur farið fram mikil hugmyndavinna þar sem íbúum sveitarfélagsins var gefin kostur á að koma sínum hugmyndum á framfæri.

Fjallað var um uppbyggingu útivistarsvæðisins í Íþrótta- og tómstundanefnd, Atvinnu- og menningarmálanefnd og Ungmennaráði. Einnig var óskað eftir hugmyndum á facebook síðu sveitarfélagsins og auglýst í Búkollu eftir hugmyndum.

Eftir mikla hugmyndavinnu þá var ákveðið að til þess að byrja með yrði settur upp 9 holu Frisbígolfvöllur, aparóla, púttvöllur ásamt útigrilli og bekkjum sem nýtist öllum íbúum. Aðrar hugmyndir sem fram komu var t.d. snake pitt, strandblakvöllur, bryggja á ánna, zip line, leiksvæði fyrir börn, útisvið og fleira.

Til þess að afmarka brautir á frisbígolfvellinum hafa verið gróðursett tré og voru þau sérvalin í samráði við Garðaþjónustu Gylfa. Svæðið verður því ekki einungis skemmtilegt til útiveru heldur einnig gríðarfallegt með fjölbreyttum trjám.

Gert er ráð fyrir því að svæðið verði tilbúið og vígt á Töðugjöldum þann 18. ágúst n.k.

Það er von okkar að svæðið allt muni nýtast vel og allir eigi eftir að eiga þar góðar stundir.

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?