Við berum öll ábyrgð!
Sorpstöð Rangárvallasýslu hefur frá árinu 2020 verið í samstarfi við Meltu (áður Jarðgerðarfélagið) um þróun á aðferð til að nýta lífrænan heimilisúrgang á hagkvæmari hátt en gert hefur verið.
Markmið samstarfsins er að búa til staðbundna hringrás fyrir lífrænu auðlindina sem fellur til á heimilum okkar allra og auðvelda nýtingu hennar innan sýslunnar.
Aðferðin felst í því að gerja lífrænan heimilisúrgang í loftfirrðum aðstæðum svo úr verði næringarríkur áburðar, mun betri afurð en hefðbundin molta.
Melta hefur þróað nýtt heimaflokkunarkerfi með því markmiði að bæta upplifun íbúa af lífrænnu flokkun, gera söfnun hagkvæmari og viðhalda gæðum hráefnisins þangað til það er meðhöndlað frekar á Strönd. Sorpstöðin þarf því ekki að flytja lífrænan heimilisúrgang um langa vegalengd með tilheyrandi kostnaði og kolefnisspori til að koma því í hefðbundna moltugerð - auk þess sem við fáum að njóta góðs af eigin auðlind í nærumhverfinu.
Flokkunarkerfinu má lýsa með 4 orðum: Opna - Fylla - Úða - Loka. Heimili fá tvær flokkunarfötur sem lokast vel og úðabrúsa með góðgerlum. Þegar íbúar flokka í föturnar úða þau góðgerlum yfir lífræna hráefnið en með því hefst for-gerjun strax í heimahúsum. Þegar föturnar fyllast losa íbúar úr þeim í viðeigandi ílát á grenndarstöðum þaðan sem það er tekið til frekari meðhöndlunar á Strönd. Lokaafurðin er svo næringarríkur áburður - eða Melta - sem nýta má í nærumhverfinu.
Kostir for-gerjunar eru meðal annars:
- Kæfir slæma lykt enda rotnar hráefnið ekki.
- Færri ferðir út með ruslið
- Minni þrif á flokkunarfötu
- Rifnir og/eða lekandi pokar heyra sögunni til
- Engin ólykt frá ruslatunnum úti
- Ekkert metangas (CH4) myndast
- Ef fólk vill nýta næringuna sjálft yfir vor- og sumarmánuði er hægt að grafa forgerjað hráefnið úti í garði minnst 2 vikum eftir að fatan fyllist
Í janúar 2023 hófst annar fasi íbúaprófana með það að markmiði að skoða hver upplifun íbúa er af nýrri flokkun og söfnun á lífrænum heimilisúrgangi. Þátttakendur fá tvær fötur og úðabrúsa með góðgerlum. Þegar föturnar fyllast losa íbúar úr þeim í viðeigandi ílát á grenndarstöðum. Skemmst er frá því að segja að þátttakendur eru nú rúmlega 50 heimili og þátttakendur mjög ánægðir og reglulega bætist í hópinn. Ef þetta er eitthvað sem vekur áhuga er hægt að lesa meira og skrá sig til þátttöku á https://melta.is/ibuar
Sjá nánari upplýsingar á https://melta.is/ibuar