Sandra Rún Jónsdóttir er skólastjóri Tónlistarskóla Rangæinga. Hún er með bakkalár gráðu c í skapandi tónlistarmiðlun frá Listaháskóla Íslands og mastersgráðu í alþjóðlegum tónlistarviðskiptum og verkefna- og viðburðastjórnun frá Berklee College of Music. Eftir útskrift starfaði hún við tónlistardeild Listaháskólans í eitt ár og síðan sem skólahljómsveitarstjóri í eitt ár áður en hún hóf störf við Tónlistarskóla Rangæinga. Einnig kenndi hún við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Tónlistarskólann í Garði á meðan hún stundaði bakkalár nám sitt. Eins og augljóst er hefur Sandra Rún mikinn áhuga á tónlist og allt sem að henni lýtur. Einnig hefur hún mikinn áhuga á listum almennt og þá sérstaklega prjónelsi, bakstri og matargerð.
Áhersla á samspil
Um 250 nemendur eru nú við nám við tónlistarskólann, í einkatímum og hóptímum. Kennt er á margskonar hljóðfæri; fiðlu, þverflautu, trompet, saxafón, píanó, gítar, trommur og raddbönd, svo einhver séu nefnd.
„Stefnan er að leggja meiri áherslu á samspil og að nemendur fái meiri reynslu í að spila með öðrum,“ segir Sandra Rún. „Við höfum sett inn á skóladagatalið jólaþemavikur, kammerviku og skapandi vikur. Tilgangurinn með því er að virkja nemendur í að spila saman og koma fram við mismunandi tækifæri og aðstæður.“
Covid hamlaði tónleikahaldi
„Skólastarfið breyttist ekki mikið vegna Covid 19, nema tónleikahaldið, sem er jú eitt af aðal atriðum í tónlistarnámi; tónleikar og tónleikar og tónfundir og tónleikar,“ segir Sandra Rún. „Því fórum við á þá leið að streyma öllum jólatónleikunum okkar á síðasta ári. Það gerði mikla lukku og létti lífið hjá mörgum í skammdeginu. Vonandi getum við stefnt að því að streyma 1-2 tónleikum á ári héðan í frá. Annars leggst veturinn bara rosalega vel í mig og vonandi fáum við að halda alla okkar tónleika án mikilla takmarkana, það væri algjör lúxus!“
Nánari upplýsingar um Tónlistarskóla Rangæinga má finna á vef skólans www.tonrang.is
Pistill þessi birtisti í september útgáfu fréttabréfs Rangárþings ytra sem nálgast má hér.