Stjórnvöld hafa í dag kynnt hertar aðgerðir vegna COVID-19. Í ljósi breyttra aðstæðna hefur því verið ákveðið að aflýsa bæjarhátíðinni Töðugjöldum þetta árið. Fjöldi á samkomum miðast nú við 100 manns og tekur 2ja metra reglan gildi frá og með hádegi, föstudaginn 31. júlí. Töðugjöld 2020 áttu að fara fram dagana 14.-16. ágúst n.k. á Hellu. Vonir stóðu til að halda mætti hátíðina a.m.k. að hluta og hefur undirbúningi miðað vel og lá dagskrá orðið fyrir þó ekki hafi verið farið að kynna hana. En um þetta þýðir ekki að fást – áfram þurfum við að vera á verði gagnvart farsóttinni og ekki ráðlegt við þessar aðstæður að blása til mikilla hátíðahalda. En þetta mun auðvitað ganga yfir og við hefjum strax undirbúning Töðugjalda næsta árs sem haldin verða 13.-15. ágúst 2021.
Það er mikilvægt að hver og einn hugi að sínum sóttvörnum og virði þær reglur sem almannavarnir setja hverju sinni. Njótum áfram sumarsins en förum gætilega.
f.h. sveitarstjórnar
Ágúst Sigurðsson
sveitarstjóri