Vegna tengivinnu við nýja dælustöð Veitna á Laugalandi verður heitavatnslaust á Hellu og Hvolsvelli í nótt og í dreifbýlinu austan Landvegar. Lokað verður fyrir vatnið klukkan 22:00 í kvöld, miðvikudaginn 31. júlí, og stefnt er að því að hleypa vatni á að nýju á fimmtudagsmorgun kl. 7:00. Nýja dælustöðin mun efla rekstraröryggi hitaveitu Veitna í Rangárþingi. Í framhaldi af vinnu við nýju dælustöðina verður ráðist í viðhald á heitavatnsgeyminum við Laugaland. Meðan á því stendur nýtur miðlunar úr geyminum ekki við. Því gætu einstakir viðskiptavinir veitunnar fundið fyrir lækkuðum þrýstingi, skyldi kólna í veðri. Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Í kuldatíð er ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni. Starfsfólk Veitna biðst velvirðingar á óþægindum vegna þessa. |