Í dag mun ríkislögreglustjóri lýsir yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna sýkinga af völdum COVID-19. Neyðarstig tekur gildi á miðnætti aðfaranótt mánudagsins 5. október samhliða hertum samkomutakmörkunum. Mikil fjölgun smita undanfarna daga auka líkur á veldisvexti.
Frá 15. september til 4. október hafa um 630 einstaklingar greinst með COVID-19 innanlands. Jafnframt hefur daglegur fjöldi nýgreindra verið um 30-40 og hlutfall þeirra sem er í sóttkví veriðum 50%. Fjöldi þeirra sem veikst hefur alvarlega hefur aukist og hafa um 20 einstaklingar þurft á sjúkrahúsinnlögn að halda. Í dag eru þrettán á sjúkrahúsi, þar af þrír á gjörgæslu og tveir á öndunarvél.
Samhliða hertum samkomutakmörkunum hefur verið ákveðið að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna á öllu landinu. Það er gert meðal annars á grunni þess að sýkingin er til staðar í öllum landshlutum.
Virkjun neyðarstigs hefur ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig sem varað hefur frá 25. maí. Stjórnvöld og viðbragðsaðilar hafa undanfarið unnið að miklu leyti eins og um neyðarstig væri að ræða. Því hafa ýmsar ráðstafanir sem neyðarstig kveður á um þegar verið gerðar. Þar má nefna áætlanir um vöktun og farsóttagreiningu ásamt því að tryggja að sóttvarnaráðstöfunum sé beitt.
Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þá sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga, að huga vel að sóttvörnum og forðast mannamót að óþörfu. Mjög áríðandi er að fólk fylgi leiðbeiningum um einstaklingsbundnar smitvarnir, virði sóttkví og fylgi gildandi takmörkunum á samkomum.
Samhæfingarstöð Almannavarna