Pat Lemos frá Spáni og Lukas Lehmann frá Þýskalandi eru par og listatvíeyki búsett á Hvolsvelli. Þau vöktu fyrst athygli okkar þegar þau héldu listaviðburð í Hellunum við Hellu á vetrarsólstöðum. Svona lýsa þau viðburðinum sjálf:
Þann 21. desember 2024 kynnti listatvíeykið LEMOS + LEHMANN (www.lemosandlehmann.com) verkefnið sitt SOLSTICE, hljóðlistabók í takmörkuðu upplagi, í fyrsta sinn á Íslandi. Viðburðurinn var styrktur af Menningarsjóði Rangárþings eystra og fór fram á vetrarsólstöðum í Kirkjuhelli við Hellu og fólst í hlustunarsamkomu.
Pat Lemos og Lukas Lehmann eru listafólk með BA-gráðu í myndlist. Starf þeirra byggir á rannsóknum og kannar samhengið milli andlegra málefna, menningar og vistfræði. Vinnan byggir oft á athugunum þeirra á svæðunum sem þau dvelja á. Verk þeirra vekja fólk til umhugsunar um skynjun, hefðir, framsetningu og samband okkar við umheiminn. Tómið og fegurðin í Zen-hugmyndafræðinni eru rauður þráður í verkum þeirra.
SOLSTICE er hljóðlistabók sem byggir á hugleiðingum tvíeykisins um andlega hringrás heimskautavetrar. Viðfangsefnið er óljós mörk hins andlega og veraldlega og sundrung sjálfsins í frjálsræði. Verkið var gefið út í 100 handgerðum eintökum, sem hægt er að nálgast á heimasíðunni þeirra, og felur í sér gagnsæja vínylplötu með tónverki sem var samið og tekið upp á Suðurlandi.
Viðburðurinn gekk snurðulaust fyrir sig og gestir lýstu honum sem einstakri upplifun. Áheyrendur sneru að hellisveggjunum og aðeins kertaljós lýstu upp rýmið. LEMOS + LEHMANN hófu viðburðinn með framsögu sem fjallaði um rannsóknir þeirra og listaverk með áherslu á menningarlegt mikilvægi vetrarsólstaða fyrr og nú í tengslum við fornan uppruna hellisins. Útkoman varð umvefjandi hljóðferðalag sem hreyfði við fólki.
Pat og Lukas
Þátttakendur sneru að hellisveggjunum
SOLSTICE-bókin
SOLSTICE-hljómplatan
Þess má geta að verkið hlaut spænsku Jerònima Galés-verðlaunin fyrir bestu listabók ársins 2024.
Það telst varla daglegt brauð að erlendir verðlaunalistamenn setjist að á þessu svæði og velji að dvelja hér við listsköpun sína. Þau féllust á að svara nokkrum spurningum til að svala forvitni okkar um þau sjálf og hvað framtíðin beri í skauti sér.
Hvers vegna Ísland og hvað fékk ykkur til að setjast að í Rangárvallasýslu?
Pat: Ég kom til Íslands fyrir 12 árum til að taka þátt í listavinnustofu á norðurhjara Íslands, á Raufarhöfn. Það var eitthvað sem togaði mig til Íslands og þessi fyrsta ferð markaði upphafið að langvarandi og djúpstæðum tengslum við landið. Í nokkur ár eyddi ég sumrunum hér við ýmis lista- og menningarverkefni innan evrópska Erasmus+ verkefnisins. Þegar við Lukas kynntumst slóst hann í för með mér í þessu farfuglalífi og við byrjuðum fljótlega að vinna við leiðsögn á söfnum á Suðurlandi, fyrst á Skógasafni og síðar á Lava Centre. Suðurland varð heimili okkar.
Hvað hefur komið ykkur mest á óvart varðandi Ísland, bæði jákvætt og neikvætt?
Árið 2021 tókum við þá stóru ákvörðun að byrja að búa hér árið um kring. Hvatinn var löngun til að kynnast landinu enn betur og öðlast skilning á flókinni samsetningu þess. Upplifunin hefur breytt lífi okkar! List okkar er innblásin af náttúrunni og andlegri tengingu manns og náttúru. Að okkar mati eru þessi tengsl hvergi sterkari en á Íslandi. Við fyllumst lotningu á hverjum degi yfir öllu sem landið býður upp á: áhrifamikið ljósið, róandi þögnina, ferska loftið, hreina vatnið og hrífandi víðáttuna.
Það sem hefur komið þeim skemmtilega á óvart:
- Veturinn og myrkrið: Ólíkt því sem oft er talað um finnst okkur veturinn og myrkrið hér falleg og alls ekki eins niðurdrepandi og margir vilja meina.
- Atvinnufrelsi: Við elskum að geta skipt á milli ólíkra starfa og tekið þeim tækifærum sem bjóðast hverju sinni.
- Velviljað samfélag: Mikill stuðningur og velvilji samfélagsins, jafnt opinberra stofnana sem einstaklinga, er ómetanlegur og hvetjandi.
Það sem hefur ekki komið eins skemmtilega á óvart:
- Matarmenningin: Okkur finnst lítið í boði á svæðinu hvað varðar matargerðarlist og áherslu á heilsu.
- Hreyfing: Okkur virðist fólk almennt hreyfa sig lítið úti við, við erum oft ein á göngu.
- Staðir til að hittast á: Hér vantar fleiri samkomustaði, á Spáni og í Þýskalandi eru t.a.m. barir og almenningsgarðar víða sem nýtast til þessa.
Hvað finnst ykkur um Rangæinga? Hafa íbúar tekið ykkur vel?
Lukas: Já, heldur betur! Síðan við fluttum hefur samfélagið tekið okkur einstaklega vel og rétt fram hjálparhönd þegar um er beðið.
Í nóvember síðastliðnum ákváðum við að segja störfum okkar lausum og einbeita okkur 100% að lista- og menningarstarfi. SOLSTICE-verkefnið tókst afar vel og viðtökurnar voru einstakar. Við fengum menningarstyrk frá Rangárþingi eystra og ýmsir einstaklingar hjálpuðu varðandi efnivið, samskipti og flutning. Flestir gestanna voru einnig af svæðinu. Bæði Rangárþing ytra og -eystra hafa tekið okkur vel og sýnt stuðning. Okkur finnst meðbyr með menningarstarfi og nýsköpun hér. Fólk er almennt spennt að heyra um áætlanir okkar og til í að taka þátt á ýmsan hátt.
Hvaða verkefni eru á teikniborðinu hjá ykkur í náinni framtíð?
Við erum að vinna að tveimur verkefnum á þessu ári. Annað þeirra tengist listrænni nálgun okkar og snýst um að finna og nýta sjálfbæran efnivið úr náttúrunni. Hitt er samstarfsverkefni sem miðar að því að spegla raddir samfélagsins og tengsl þess við landið. Bæði verkefnin eru hugsuð sem langtímaverkefni og hönnuð til að ná yfir allt Suðurland. Við munum kynna þau betur á næstu mánuðum.
Einnig stefnum við á að opna útibú menningarstofnunarinnar okkar, BONFIRE, hér á Íslandi. Þannig getum við fengið til okkar erlent listafólk á vinnustofur og í verkefni sem tengjast samfélaginu. Framtíðin er björt og tækifærin mörg. Við hlökkum innilega til þess að mynda tengsl og bjóða upp á viðburði og upplifanir. Í heimi sem einblínir oft eingöngu á neyslu eru listir og menning frábært tækifæri til að tengjast öðrum og víkka sjóndeildarhringinn.
Við þökkum þeim Pat og Lukas kærlega fyrir viðkynninguna. Við hlökkum einnig til að fylgjast með þeim auðga menningarlíf svæðisins í framtíðinni.
Þau sem vilja fylgjast með tvíeykinu geta skoðað heimasíðuna þeirra og fylgt þeim á Instagram: