Slagkraftur - ferðaþjónusta í Rangárþingi ytra

Slagkraftur – Ferðaþjónusta í Rangárþingi ytra

Samráðsfundur ferðaþjónustunnar í Rangárþingi ytra var haldinn s.l. þriðjudag í safnaðarheimili Oddasóknar á Hellu. Fundurinn var vel sóttur og spunnust góðar umræður. Fundurinn var haldinn að frumkvæði atvinnu- og menningarmálanefndar og markaðs- og kynningarfulltrúa í tilefni þess að um ár er liðið síðan síðasti fundur var haldinn, en á þeim fundi var ákveðið að leggja til við sveitarstjórn að ráðinn yrði markaðs- og kynningarfulltrúi til sveitarfélagsins. Það var farið til þess og var því haldinn fundur nú ári síðar þar sem markaðs- og kynningarfulltrúi vildi fá kynna sig, þau verkefni sem væru á döfinni og heyra hvað brenni á ferðaþjónustuaðilum í Rangárþingi ytra. Einnig var rætt um það hvort áhugi væri fyrir hendi að stofna til formlegs samráðshóps ferðaþjónustu í Rangárþingi ytra sem jafnframt myndi vinna að kynningarefni. Ákveðið var að fyrsta skrefið í því væri að stofna til facebook-hóps þar sem ferðaþjónustuaðilar gætu deilt upplýsingum sín á milli. Hópinn má nálgast hér: https://www.facebook.com/groups/930075510439309/?fref=ts. Lagt var til að hópurinn fengi nafnið „Slagkraftur – ferðaþjónusta í Rangárþingi ytra“.

Það sem helst brann á ferðaþjónustuaðilum voru samgöngur í sveitarfélaginu og upplýsingamiðlun. Einnig það að við verðum að spýta í og kynna landsbyggðina enn betur á móti höfuðborgarsvæðinu, langflestir ferðamenn sem koma í Rangárþing ytra eru dagsferðamenn frá höfuðborgarsvæðinu sem ekki hafa næturdvöl á svæðinu. Beint kynningarefni um sveitarfélagið vantar svo upplýsingagjöf verði markvissari og taki styttri tíma. Einnig var hvatt til þess að merking sögustaða verði efld og hugað verði að samantekt upplýsinga sem einungis eru geymdar í munnmæli og eru óðum að glatast með elstu íbúum sveitarfélagsins.

Þau verkefni tengd ferðaþjónustu sem liggja fyrir í vor og sumar eru:

Power and purity

-          Bæklingurinn mun koma út í lok apríl í 35.000 eintökum.

Fornminja – appið

-          Styrkur fékkst frá fornminjasjóð til þess að fara af stað með gerð fornminja-apps. App er forrit sem hlaðið er niður í snjalltæki (síma og spjaldtölvur). Appið mun leiða gesti um fyrirfram ákveðinn gönguhring á Hellu sem mun taka um 45 mín. Á þeirri leið mun forritið í gegnum snjalltækið gefa viðkomandi upplýsingar um merkilega sögustaði á leiðinni.

Kort af Hellu

-          Í vinnslu er teiknað þéttbýliskort af Hellu. Kortið verður tilbúið í lok maí og mun verða sett á skilti fyrir framan miðjuna. Kortið verður aðgengilegt með stafrænum hætti fyrir þá sem þess óska.

Uppbygging áfangastaða

-          Í sumar stendur til að fara í framkvæmdir á tveimur stöðum:

o   Þjófafoss, til stendur að laga aðstöðuna, gera þar afmarkaðan útsýnispall. Styrkur vegna þessa verkefnis kom frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og Landsvirkjun.

o   Ægisíðufoss, til stendur að lagfæra göngustíg að fossinum og aðstöðuna við fossinn. Styrkur vegna þessa verkefnis kom frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Uppsetning listaverka

-         Hestarnir eru listaverk af fjórum hestum í fullri stærð, teiknaðir af Alberti Jóhannssyni frá Skógum en stílfærðir af Önnu Guðrúnu Jónsdóttur sem teiknaði þá uppá járn, Heiðar Jónsson stálsmiður skar þá út. Hestarnir sýna fjórar gangtegundir tölt, brokk, skeið og stökk. Ekki er búið að finna staðsetningu fyrir hestana en nokkrar hugmyndir eru uppi. Til stendur að finna listaverkunum staðsetningu á næstu dögum og að þeir verði settir upp í sumar. Tillögur um staðsetningu eru velkomnar.

Áætlun um uppbyggingu áfangastaða

-         Fyrir liggur að taka saman upplýsingar og gera áætlun um uppbyggingu áfangastaða innan Rangárþings ytra til 3 ára með langtímaáætlun uppá 12 ár. Nauðsynlegt er að heyra frá ferðaþjónustuaðilum hvaða áfangastaði þeir sjá fyrir sér að verði byggðir upp. Við eigum áfangastaði sem eru ósnertir og aðra þar sem tækifæri er að gera betur. Áætlunin þyrfti að ná yfir alla þessa staði.

Ef einhverjar spurningar eru vegna þessara verkefna hafið þá endilega samband við markaðs- og kynningarfulltrúa, Eirík Vilhelm Sigurðarson. S: 4887000 og netfang eirikur@ry.is

 

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?