Ásýnd lands í Rangárþingi hefur breyst umtalsvert til hins betra undanfarna áratugi, að flestra mati, með aukinni áherslu á skógrækt. Í sýslunni eru nú allmargir skógi vaxnir reitir sem plantað hefur verið í á vegum Skógræktarfélags Rangæinga. Við fengum Sigríði Helgu Heiðmundsdóttur, formann Skógræktarfélags Rangæinga, til að segja okkur frá því helsta í starfsemi félagsins og hvað hefur áunnist.
Frumkvöðlarnir
Skógræktarfélag Rangæinga var stofnað 20. nóvember 1943 að Stórólfshvoli. Í fyrstu stjórn voru Ólafur Bergsteinsson bóndi Árgilsstöðum formaður, Helgi Jónasson héraðslæknir Stórólfshvoli, Erlendur Þórðarson sóknarprestur Odda, Jón M. Guðjónsson sóknarprestur í Holti, og Guðmundur Jónsson bóndi á Núpi í Fljótshlíð.
Í upphafi var reynt að stofna deildir í hreppum sýslunnar en það gekk ekki sem skyldi. Hafin var birkirækt í landi Stórólfshvols en vöxturinn var hægur til að byrja með. Þó er þar vaxinn upp allmikill skógarreitur. Girtar voru nokkrar girðingar til gróðursetningar, en flestar voru þær litlar. Þó má nefna Tungugirðingu í Fljótshlíð, sem er um það bil 10 hektarar og þar er uppvaxinn mikill skógur. Byrjað var að planta þar árið 1952 og er Tunguskógur nú einn fallegasti grenireitur landsins. Auk þess voru girðingar í Gunnarsholti og í Krappa á mótum Fiskár og Eystri-Rangár, í landi Árgilsstaða og víðar.
Skógræktarfélag Rangæinga eignaðist jörðina Hamragarða í Vestur-Eyjafjallahreppi þegar Erlendur Guðjónsson bóndi gaf félaginu jörðina. Félagið keypti síðan hús þau er á jörðinni voru. Þar var hafist handa við að planta en síðar var ákveðið að selja jörðina þar sem skilyrði til trjáræktar virtust ekki vera nægilega góð.
Markús og plógurinn
Lengi var starfsemi félagsins ansi brokkgeng. Straumhvörf urðu hins vegar í starfi þess þegar Markús Runólfsson í Langagerði, sá mikli eldhugi og frumkvöðull, kom inn í stjórn félagsins árið 1983. Hann varð formaður 1985 og gengdi því embætti til 2002. Hann hafði stórar hugmyndir um mikilvægi skóga í landinu og hóf strax að kanna möguleika á að fá land undir skógrækt í Rangárþingi. Hann lét smíða „Markúsarplóginn“, sem var hans hugmynd, og með honum var hægt að planta skógi í mikið land á skömmum tíma. Með tilkomu plógsins töldust plönturnar ekki í tugum sem í jörð fóru, heldur í hundruðum þúsunda. Árangur þessa má sjá víða hér í sýslunni, enda Rangárvallasýsla sú sýsla landsins þar sem hvað mestur manngerður skógur vex. Bændur og aðrir landeigendur í Rangárþingi hafa einnig verið ötulir við að planta trjám í lönd sín.
Jólatré og vinnudagar
Starfsemi Skógræktarfélags Rangæinga er í dag mikil og öflug og sér félagið árlega um gróðursetningu á tug þúsundum plantna. Þá hefur verið leitast við að útbúa skógarreitina, sem félagið er með í sinni umsjón, þannig að greiðfært sé um þá og íbúar sýslunnar og aðrir geti notið útivistar í skjóli tránna. Í samstarfi við sveitarfélögin og Vegagerðina hefur verið borið í slóða í skógunum og slegnar brautir þar sem við á. Reynt hefur verið að halda vinnudaga og skógargöngur og vonumst við til að hægt verði að halda þær uppákomur í sumar ef sóttvarnarreglur verða ekki mjög hamlandi.
Einn er sá viðburður sem skapast hefur mikil hefð fyrir en það er jólatrjáasalan sem Skógræktarfélag Rangæinga hefur staðið fyrir í Bolholtsskógi árlega um langa hríð. Þá kemur fólk í skóginn og velur sér „jólatré“. Þetta er mjög vinsælt og sem dæmi þá komu ríflega 200 manns í Bolholtsskóg á söludaginn í desember síðastliðnum. Allir viðburðir á vegum félagsins eru kynntir á Facebook síðu Skógræktarfélags Rangæinga. Félagar í Skógræktarfélagi Rangæinga eru nú 280 og við tökum fagnandi við hverjum þeim sem í félagið vill ganga.
Þá má geta þess að samstarfssamningur er á milli Skógræktarfélags Rangæinga og sveitarfélaganna þriggja í sýslunni og styrkja þau félagið peningalega á ári hverju.
Helstu skógarreitir
Skógræktarsvæði félagsins eru mörg og dreifast um sýsluna. Ef farið frá austri til vesturs þá er fyrst að nefna svæði í Skógum undir Eyjafjöllum, bæði ofan þjóðvegar og í brekkunni ofan við gamla héraðsskólann. Í brekkunum ofan skólans eru góðar gönguleiðir um skóginn og þar var haustið 2013 opnaður svokallaður „Opinn skógur“.
Á Markarfljótsaurum, austan við Dímonarveg hefur vaxið upp myndarlegur skógur við erfiðar aðstæður og það má án efa þakka lúpínunni, sem Markús Runólfsson sáði um svipað leyti og plantað var.
Kotvöllur er eignarland Skógræktarfélags Rangæinga. Þar eru trén mörg hver orðin stór og vöxtuleg. Á Kotvelli hafa verið slegnar brautir um allt svæðið og upplagt að njóta útivistar í þessum fallega skógi, svo ekki sé talað um útsýnið ef farið er upp í brekkurnar.
Teitsskógur í Kollabæjarlandi er hægt og bítandi að vaxa upp, en þar var plantað fyrir gjafafé Teits Sveinssonar frá Grjótá. Að þeim reit má komast af Vatnsdalsvegi.
Skógræktarfélag Rangæinga hefur séð um gróðursetningu í Kolviðarskógi á Geitasandi, fyrst árin 2007, síðan 2008 og 2009, og aftur síðastliðið haust. En að öðru leyti er þessi skógur í umsjón Kolviðar. Þar er að vaxa upp mikill og fallegur skógur, á þessu annars gróðursnauða landssvæði.
Aldamótaskógur á Gaddstöðum er útivistarsvæði sem meðal annars Hellubúar nýta vel. Þar eru ágætar brautir og slóðar sem hægt er að ganga um, þá hefur svæðið verið vinsælt meðal hestamanna, enda fátt betra en að ríða út í skjóli trjánna.
Ásabrekka í Ásahreppi er vestasti skógarreiturinn sem Skógrækarfélag Rangæinga hefur umsjón með, afar vinsæll, lítill en fallegur reitur sem blasir við þegar ekinn er þjóðvegur 1 úr vestri, rétt austan við Áshól. Þar er líkt og í Skógum „Opinn skógur“. Áshreppingar eru sérlega duglegir að nýta þennan fallega reit við ýmsar hátíðarsamkomur.
Réttarneshraun er enn einn staður í viðbót sem Skógræktarfélag Rangæinga hefur umsjón með. Þar var plantað allmiklu af trjám á sínum tíma, meðal annars lerki. Lengi vel virtist sem trén ætluðu ekki að spjara sig nægilega vel en nú hin síðari ár hefur vöxtur trjánna aukist hratt og þarna er nú fallegur skógur.
Paradís í Bolholti
Bolholtsskógur er stærsta svæðið sem Skógræktarfélag Rangæinga er með í sinni umsjón. Þar er uppvaxinn mikill og fallegur skógur. Mikið hefur verið unnið í lagfæringum á vegum og slóðum og verður svo áfram. Þarna getur fólk komið og ekið um allar helstu brautir, sem að sumri til eru færar flestum bílum. Ef farið er upp á hraunið er betra að vera á jeppa. Gerðir hafa verið stígar í skóginum og verður því verki haldið áfram næstu árin. Hugmyndin er að út frá öllum helstu slóðum í skóginum verði styttri göngustígar og áningarstaðir. Það hefur verið gaman að fylgjast með því hvað fólk er duglegt að koma í skóginn og nýta sér hann til útivistar. Þar er hægt að fara í gönguferðir og þar eru frábærar hlaupaleiðir. Brautirnar henta vel fyrir gönguskíðafólk og þannig mætti áfram telja. Nú er búið að koma upp korti af öllum helstu leiðum í skóginum og jafnframt merkja hverja slóð með litum í samræmi við kort.
Að lokum er rétt að minna á að aðalfundur Skógræktarfélagsins verður haldinn 8. júní í Safnaðarheimilinu á Hellu kl. 20.00 og bjóðum við nýja félaga sérstaklega velkomna.
Í stjórn Skógræktarfélags Rangæinga eru nú: Sigríður Helga Heiðmundsdóttir formaður, Haraldur Birgir Haraldsson gjaldkeri, Þorsteinn Jónsson ritari, Margrét Grétarsdóttir og Ásdís Arnardóttir meðstjórnendur. Varamenn eru Jón Ragnar Örlygsson, Klara Viðarsdóttir og Sigurður Blöndal.
Fleiri myndir og umfjallanir má nálgast í fréttabréfi sveitarfélagsins.
6 Kort af merktum gönguleiðum í Bolholti.