Sindri Freyr hefur verið valinn úr hópi tilnefndra sem íþróttamaður Rangárþings ytra 2019 en það er heilsu-, íþrótta- og tómstundanefnd sem ákveður hver það er sem hlýtur titilinn eftir tilnefningar frá íþróttafélögum í sveitarfélaginu. Þar sem öllum viðburðum þar sem til stóð að veita viðurkenninguna á þessu ári var aflýst var brugðið á það ráð að heimsækja Sindra Frey og afhenda honum viðurkenninguna.
Sindri Freyr er 17 ára, einn efnilegasti frjálsíþróttamaður landsins og er hann í úrvalshópi Frjálsíþróttasambands íslands.
Sindri Freyr hefur á árinu 2019 keppt á 19 mótum og sett á þeim 10 HSK met. Metin setti hann Í 200 metra hlaupi, 4x200metra hlaupi og svo 4x100m hlaupi. Innanhúsmótin voru alls 8 og utanhúsmótin 11.
Helsta afrek Sindra á árinu 2019 var að hlaupa 200 metra hlaup á Gautaborgarleikunum þar sem keppendur koma allstaðar að innan Evrópu. Þar hljóp Sindri á 22,97 sek í mótvindi uppá -1,6 sem er mikill mótvindur, þar varð hann í 6 sæti af 61 keppendum. Þar bætti hann 32 ára gamalt HSK met Ólafs Guðmundssonar í flokki 18-19 ára.
Sindri Freyr hefur sett sér háleit markmið og það verður svo sannarlega áhugavert að fylgjast með honum í framtíðinni.
Innilega til hamingju Sindri þú ert vel að þessu kominn!