Samantekt íbúafundar 5. desember 2024

Opinn íbúafundur var haldinn í safnaðarheimilinu á Hellu 5. desember 2024. Fundurinn var einnig sendur út í streymi á Facebook-síðu sveitarfélagsins og upptökuna má nálgast á Youtube-rás Rangárþings ytra.

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarfélagsins, stýrði fundinum en einnig tóku til máls Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri, Tómas Haukur Tómasson forstöðumaður eigna og framkvæmdasviðs og Margrét Harpa Guðsteinsdóttir varaoddviti.

Á dagskrá voru kynning á hönnun nýrrar leikskólabyggingar á Hellu og umræður um nýja gjaldskrá Odda bs. sem tekur gildi 1. janúar 2025.

Eyrún Margrét Stefánsdóttir frá arkitektastofunni Arkís kynnti forteikningar af hönnun nýrrar leikskólabyggingar Heklukots en áætlað er að framkvæmdir við hana hefjist haustið 2025.

Forteikningarnar taka mið af vinnu sem hefur átt sér stað með samvinnu Arkís, rýnihóps notenda og sveitarfélagsins. Öll hönnun miðar að því að stuðla að vellíðan notenda, jafnt leikskólabarna sem starfsfólks.

Eyrún sýndi teikningar af fyrirhugaðri byggingu og leikskólalóð og tölvuteiknað myndskeið sem gaf góða mynd af rýminu.

Teikningarnar má nálgast með því að smella hér og myndskeiðið með því að smella hér.

Helstu atriði sem komu fram í kynningu Eyrúnar:

  • Kennarastofa og starfsmannarými verður sameiginlegt hjá starfsfólki Heklukots og Grunnskólans á Hellu á 2. hæð suðurbyggingar grunnskólans sem þegar er risin og verður tekin í notkun haustið 2025.
  • Aðalaðkoman að leikskólanum verður frá Þingskálum en hægt verður að komast inn á leikskólalóðina vestan- og norðaustanmegin.
  • Stærð leikskólans verður um 1450 fm og mun hann rúma 8 deildir með allt að 160 börnum.
  • Inngangar í leikskólann eru frá leikskólalóð á þremur stöðum og innangengt verður á milli leik- og grunnskólans en rými skólanna verður samnýtt að einhverju leyti, t.a.m. verður matsalurinn samnýttur.
  • Tvær deildir verða ætlaðar 1–2 ára börnum og verður útisvæði þeirra afmarkað frá leikskólalóðinni.
  • Þrjár deildir verða ætlaðar börnum 2–5 ára og þrjár fyrir 5–6 ára.
  • Lagt er upp með góða tengingu inni- og útirýma og dagsbirta tryggð í öll íverurými.

 

Að lokinni kynningu um nýju leikskólabygginguna var farið í kynningu á nýrri gjaldskrá Odda bs. og umræður um hana. Jón G. Valgeirsson sveitarstjóri hélt stutta kynningu sem má nálgast hér og svo fóru fram umræður.

Helstu atriði varðandi nýja gjaldskrá Odda bs. má lesa með því að smella hér og nýju gjaldskrána má skoða í heild sinni með því að smella hér.

 

Spurningar sem komu fram á fundinum varðandi leikskólabygginguna:

  • Verður framkvæmdin gerð í einum áfanga eða skipt upp?
    1. Hönnunin gerir ráð fyrir að hægt sé að skipta verkinu upp í hluta en gert er ráð fyrir að byggja húsið allt í einum áfanga. Líklegt er þó að skólinn yrði tekinn í notkun í áföngum eftir þörfum. Einnig er hægt að taka innanrýmið í áföngum eftir aðstöðu og þörfum.
  • Næst viðunandi samband og samskipti á milli starfsfólks þegar starfsmannarými, skrifstofur stjórnenda og kaffistofa eru í öðru rými og sameiginleg með grunnskólanum?
    1. Starfshópur sem vann frumtillögur lagði mikla áherslu á að hafa sameiginleg rými milli skólastiga – sú ósk kom frá starfsfólki skólanna. Þau sem komið hafa að hugmyndavinnunni eru sammála um að þetta sé ákjósanlegt fyrirkomulag.
  • Spurt var út í fermetrafjölda á barn – eru það 9 fm á barn:
    1. Svar: Nei, fermetrafjöldi á barn reiknast í kringum 10 fm þegar öll rými eru reiknuð inn, s.s. matsalur, listasmiðjur, vinnuherbergi o.fl. Þarna er verið að tala um brúttófermetra reiknaða út frá heildarrými leikskólans. Nettófermetrar af leikrými inni á deildum á hvert barn er 4–5 fermetrar.
  • Hvenær er stefnt á að byggingin verði tilbúin?
    1. Svar: Áætlað er að taka húsið í notkun á seinni hluta ársins 2027.
  • Telst öruggt að hönnun með flötum þökum og torfi á þaki standist kröfur og fari ekki að leka?
    1. Svar: Þökin eru ekki flöt og allir sérfræðingar sem hafa komið að hönnun og byggingu telja að þakið standist kröfur og þoli það álag sem á það er lagt.
  • Hvernig eru þessar stóru framkvæmdir fjármagnaðar?
    1. Útsvarstekjur duga ekki einar og sér, heldur þarf að fara í lántöku til skemmri tíma til að fjármagna framkvæmdirnar. Gert er ráð fyrir styrk frá KSÍ sem fjármagnar fótboltavöllinn að hluta. Flest tilboð sem fengist hafa í verk hafa verið undir áætlun og gert er ráð fyrir að áætlanir standist.
  • Hvernig er málum háttað með bílastæði, bæði starfsfólks og foreldra?
    1. Sér bílastæði verða fyrir foreldra til að skutla börnum í leikskóla og skóla, sleppistæði fyrir þau sem eru að skutla eldri börnum verða á öðrum stað og bílastæði starfsfólks á enn öðrum stað. Gert er ráð fyrir allmörgum bílastæðum sem ættu að duga vel. Nákvæm útfærsla kemur í ljós þegar lokahönnun liggur fyrir og framkvæmdir hefjast.
  • Snýr garðskálinn í óhagstæða átt hvað varðar birtu?
    1. Hönnuður telur svo ekki vera enda garðskálinn ekki hugsaður sem suðupottur til suðurs. Hann ætti að ná dagsbirtunni vel og einkum morgunbirtu, auk þess er lýsing til staðar.
  • Er gert ráð fyrir gardínum í byggingunni?
    1. Það samtal verður tekið á næstu stigum hönnunarinnar.
  • Hvað verður um gamla Heklukot og leikskólalóðina?
    1. Áætlanir gera ráð fyrir að sveitarfélagið haldi bláa húsi Heklukots, sunnan megin Útskálanna, og nýti það undir aðra starfsemi. Þær hugmyndir á eftir að útfæra betur en húsið gæti t.a.m. nýst undir félagsmiðstöð og annað félagsstarf.
  • Verður einhver peningur eftir til að viðhalda eldri hluta skólans eftir þessar stóru framkvæmdir?
    1. Já, áætlanir gera ráð fyrir fjármagni í viðhald allra fasteigna. Þegar 2. áfangi skólabyggingarinnar verður tekinn í notkun er gert ráð fyrir að ráðist verði í viðhald á eldri hluta skólans.

 

Spurningar sem komu fram á fundinum varðandi nýja gjaldskrá Odda bs.

  • Varðandi sveigjanlegan vistunartíma: Foreldri er í vaktavinnu og í fríi á mismunandi dögum í hverri viku. Er hægt að hafa barn í fríi t.d. einn dag í viku en ekki alltaf sama vikudaginn?
    • Í flestum tilfellum ætti að vera hægt að útfæra slíkt í samráði við leikskólastjóra. Foreldrum er bent á að hafa samband við sinn deildar- og leikskólastjóra til að fá óyggjandi svar við hverju tilfelli.
  • Varðandi tímann á milli 14 og 16 á föstudögum. Er einhver sveigjanleiki með þá tíma, t.d. hægt að taka styttinguna á öðrum dögum vikunnar til að sleppa við að greiða hærra gjald fyrir þessa 2 tíma á föstudögum?
    • Svar: Ekki er hægt að bjóða upp á frekari sveigjanleika hvað það varðar. Tíminn frá 14–16 á föstudögum kostar meira til að stuðla að því að sem flest börn séu farin heim kl. 14 á föstudögum því það er sá tími sem skiptir mestu hvað varðar mönnun leikskólans og að hægt sé stytta vinnuviku starfsfólks í 36 klukkustundir á viku. Föstudagurinn er einnig valinn vegna þess að flestir á almennum og opinberum vinnumarkaði sem eru komnir með styttri vinnuviku eru að vinna styttra á föstudögum og breytingin er í takti við það.
  • Athugasemd kom fram um að verið væri að varpa vanda leikskólans yfir á foreldra með þessum breytingum með því að hækka gjöld og mælast til þess að vistun barna ljúki kl. 14 á föstudögum. Spurt er hvort athugasemdir á fundinum verði teknar til greina eða hvort búið sé að staðfesta breytingarnar nú þegar. Sami aðili bendir á skort á samráði við foreldra.
    • Svar: Breytingarnar eru þegar staðfestar og eru til kynningar og umræðu á fundinum eins og auglýst var. Það er ekki ætlun sveitarfélagsins að varpa vanda yfir á foreldra heldur eru þetta viðbrögð við umsömdum kröfum um 36 stunda vinnuviku skólastarfsfólks, viðbrögð við mönnunarvanda, tilraun til að bæta starfs- og námsumhverfi og stuðla að meiri samveru foreldra og barna. Tekið er skýrt fram að litið er á þessar breytingar sem tilraun og verða þær endurskoðaðar í lok skólaársins m.t.t. athugasemda og reynslu og ákvörðun tekin í kjölfarið hvort ástæða sé til frekari breytinga. Einnig er tekið skýrt fram að þessar ákvarðanir voru ekki teknar án samráðs en í vinnuhópi sem vann að tillögum sem breytingarnar byggja á sátu fulltrúar foreldra, starfsfólks skólanna, starfsfólk sveitarfélagsins og kjörinna fulltrúa. Enn fremur er bent á að þrátt fyrir hækkun gjaldskrár er Rangárþing ytra eftir sem áður með lág leikskólagjöld og t.a.m. með lægri gjöld en sveitarfélögin í kring. Lögð er áhersla á að sveitarfélagið vill ekki að fólk fari að minnka við sig vinnu vegna breytinganna en að fólk líti sér nær og skrái börnin í það hlutfall sem virkilega er þörf á – ekki t.d. hámarksvistun bara til að hafa slíkt til öryggis og nýta það svo ekki. Þetta snýst líka um að hafa fyrirsjáanleika í leikskólastarfinu.
  • Spurt var hver væri helsta orsök mönnunarvanda leikskólanna, væru það t.d. laun eða álag?
    • Svar: Vandinn er fjölþættur. Fagmenntaðir leikskólakennarar mega nú líka kenna í grunnskóla og það hefur verið nokkur þróun í þá átt að kennarar velji grunnskólann frekar en leikskólann að námi loknu. Forföll, veikindi og fæðingarorlof gera það að verkum að erfitt er oft að ná endum saman með mönnun frá degi til dags. Atvinnuleysi er lítið og erfitt er að fá fólk til starfa á leikskólum af ýmsum ástæðum en líklega ekki síst vegna þess að launin hafa verið lág og álagið of mikið. Ýmis önnur sveitarfélög hafa getað boðið betur hvað varðar styttri vinnuviku og þetta er líka tilraun til að jafna leikinn svo við getum boðið sambærilegar aðstæður og kjör og önnur sveitarfélög.
  • Spurt er hvort skoðað hafi verið að skikka foreldra sem eru ýmist ekki í vinnu eða í skertu starfshlutfalli til að minnka vistunartíma barna sinna í takt við það?
    • Slíkt hefur verið rætt almennt en niðurstaðan hefur verið sú að ekki sé grundvöllur fyrir slíkri flokkun. Stigskiptri gjaldskrá er þó ætlað að reyna að stýra því í þá átt að foreldrar sem eiga kost á að hafa börn í styttri vistun geri það frekar og hafi þá einnig af því fjárhagslegan ávinning með lægri gjöldum.
  • Spurt er hvort 30 tíma vistun sé í raun hámarkið fyrir 12–24 mánaða börn?
    • Svar: Það má sækja um lengri vistun fyrir þau börn eins og önnur. Stefnan er þó sú að mælst er til þess að stytta vistunartíma yngstu barnanna og bent á að hægt er að sækja um hlutaheimgreiðslur á móti fyrir þennan aldurshóp. Full heimgreiðsla hækkar upp í 125.000 kr. á mánuði 1. janúar 2025. Full heimgreiðsla er í boði fyrir börn frá 12–24 mánaða sem eru ekki á leikskóla en einnig verður í boði að fá hlutaheimgreiðslu fyrir börn sem eru hlutavistun, að hámarki 30 tíma á viku.
  • Hefur Oddi bs. skoðað sveigjanlegra sumarfrí?
    • Svar: Það var rætt í þessum starfshópi og niðurstaðan var að fara ekki í slíkar útfærslur að svo stöddu. Þegar nýja leikskólabyggingin kemst í gagnið verður mögulega hægt að skoða breytingar á sumarfríi. Eins og stendur verður áherslan á gjaldskrárbreytingar og að ná tökum á þeim vanda sem liggur fyrir.
  • Spurt er varðandi skráningardaga í jólafríi og dymbilviku: Verða leikskólarnir sameinaðir á þessum tíma, þ.e. koma börnin frá Laugalandi að Hellu?
    • Svar: Já, stefnan er að sameina á Hellu á þessum dögum til hagræðingar og að starfsfólk frá Laugalandi fylgi þá börnunum þaðan á Hellu.
  • Spurt er hvað er gert til að tryggja faglegt starf á leikskólum þegar lágt hlutfall fagmenntaðra er til staðar og hvað er hægt að gera til að laða að fagmenntað fólk?
    • Svar: Sveitarfélagið hefur í nokkur ár styrkt starfsfólk til náms og mun halda því áfram. Stjórnendur leggja línurnar varðandi faglega starfið og vinna fagmenntaðir jafnt sem ófaglærðir saman að því að halda því uppi.
  • Hvar verður útisvæði leikskólabarna sem flytjast yfir í nýbyggingu skólans haustið 2025?
    • Bráðabirgðaleiksvæði yrði austan við grunnskólann, afgirt fyrir leikskólabörnin.

 

Aðrar spurningar sem komu fram á fundinum:

  • Spurt er um verslunarmál. Er lágvöruverslun væntanleg og þá hvenær?
    • Svar: Já, en ekki er hægt að svara því nákvæmlega hvenær. Sveitarfélagið er í viðræðum við aðila en ekki er hægt að fara nánar í málið að þessu sinni þar sem viðræður eru á viðkvæmu stigi. Um er að ræða Rangárbakkalóðina sunnan þjóðvegarins, vestan Stracta hótels.

 

Fulltrúar sveitarfélagsins þakka íbúum fyrir góðan fund og gagnlegar umræður.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?