Rósey ehf. er nýtt fyrirtæki á Hellu sem sérhæfir sig í viðgerðum á öllu er tengist glussakerfum, hvort heldur það eru ámoksturstæki á dráttarvél eða stórar vélasamstæður í frystihúsum og iðnaði. Eigandi þess er Torfi Sigurðsson vélstjóri og þúsundþjalasmiður.
Rætur í Rangárþingi
Torfi er fæddur á Eyrarbakka, ólst upp í Gaulverjabæjarhreppi og flutti 13 ára gamall til Keflavíkur. Þar stundaði hann sjóinn, gerði út trillu, vann sem vélvirki við Dráttarbrautina og fleira. Hann nam vélstjórn við Vélskóla Íslands og starfaði síðan lengi erlendis, með hléum, oftast við vélstjórn og annað vélatengt. Meðal annars var hann í 10 ár vélstjóri á norksu tankskipi sem slátraði og fargaði sýktum laxi úr sjókvíum. Covid 19 faraldurinn gerði honum hins vegar erfitt fyrir, eins og svo mörgum fleirum, að flakka á milli landa vegna vinnunnar. Hann flutti heim til Íslands 2019 og býr nú á Hvolsvelli ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Sigurósk Sigurðardóttir. Þau eiga fjögur uppkomin börn, þrjá syni og eina dóttur. Dóttirin býr í Noregi, einn sonurinn í Chile, annar í Reykjavík og sá þriðji á Hvolsvelli.
„Ástæðan fyrir því að við fluttum á Hvolsvöll er að tengdaforeldrar mínir bjuggu þar þegar við fluttum heim til Íslands. Tengdamóðir mín er nú látin en Sigurður býr á elliheimilinu á Hvolsvelli. Þau eru bæði úr Austur-Landeyjum, hann frá Steinmóðabæ en hún frá Voðmúlastöðum, þannig að konan mín á rætur á þessum slóðum.“
Þekki þetta út og inn
Rósey er til húsa í 100 fermetra húsnæði að Dynskálum 26, á horninu við Langasand og þjóðveg 1 og er þar á iðnaðarsvæði í grennd við bifreiðaverkstæði og önnur slík fyrirtæki. Það húsnæði er reyndar þegar orðið of lítið og Torfi er að leita að stærra húsnæði undir verkstæðið.
„Ég stofnaði fyrirtækið í júlí í fyrra og starfsemin fór í gang í desember, þá voru loksins allar helstu vélar og tæki komin í hús. Reksturinn fer vel af stað, þrátt fyrir að Covid hafi sett markaðsstarfi skorður, allavega hefur reksturinn þegar sprengt utan af sér þetta húsnæði sem við erum í núna, það er orðið of lítið. Það virðist hafa verið þörf fyrir þessa þjónustu á svæðinu. Það eru vissulega fyrirtæki hér á Suðurlandi sem sinna viðgerðum á glussakerfum, en ég held að Rósey sé eina fyrirtækið á landinu sem sérhæfir sig alfarið á þessu sviði.
Ég þekki þennan geira út og inn, var meðal annars með svipaða þjónustu fyrir skipasmíðastöð í Noregi í nokkur ár. Hér getum við smíðað allar gerðir af háþrýsti- og lágþrýsti slöngum og útvegað allt í vökvakerfi, stór og smá. Við smíðum glussarör og bremsurör, þrykkjum enda á lágþrýstirör, gerum við ventlakistur, dælur og mótora og yfirhöfuð allt sem viðkemur glussakerfum. ,“ segir Torfi Sigurðsson.
Pistill þessi birtisti í september útgáfu fréttabréfs Rangárþings ytra sem nálgast má hér.