Suðurland leiðir vöxt heildaratvinnutekna á landsvísu
Ný skýrsla Byggðastofnunar um tekjur einstaklinga eftir svæðum árin 2008–2024 leiðir í ljós að Suðurland hefur sýnt hvað mesta viðspyrnu og vöxt allra landshluta á undanförnum árum. Þrátt fyrir áskoranir í efnahagslífinu sker landshlutinn sig úr með mikilli aukningu heildaratvinnutekna, sem drifin er áfram af öflugu atvinnulífi og fólksfjölgun.
Uppgangur í Rangárvallsýslu
Í okkar sýslu jukust atvinnutekjur um 4,4% á milli ára á meðan vöxturinn á Suðurlandi í heild var um 2,1% á milli ára. Hækkunin skýrist helst af auknum umsvifum og fólksfjölgun. Vöxturinn er drifinn áfram af því að það eru fleiri hendur að vinna verkin, sérstaklega í ferðaþjónustunni. Kakan stækkar af því að fleiri eru komnir að borðinu.
Mesti vöxturinn frá 2017
Þegar horft er til lengri tíma, eða frá árinu 2017 til 2024, hafa heildaratvinnutekjur á Suðurlandi aukist meira en í nokkrum öðrum landshlutum. Vöxturinn nemur um 33% á tímabilinu, en til samanburðar var vöxturinn 32% á Suðurnesjum og minni annars staðar.
Árið 2024 hélt Suðurland áfram að leiða vöxtinn á landsvísu. Heildaratvinnutekjur jukust um 2,1% milli ára á Suðurlandi, á sama tíma og vöxturinn var 1,5% á Suðurnesjum og samdráttur mældist á Austurlandi.
Samsetning tekna og áhrif ferðaþjónustu
Sérstaða atvinnulífs á Suðurlandi endurspeglast skýrt í tölunum. Rekstur gisti- og veitingastaða vegur þungt og stóð greinin fyrir 10% af heildaratvinnutekjum landshlutans árið 2024.
Athygli vekur að hlutdeild hefðbundinna atvinnutekna af heildartekjum íbúa (þegar lífeyrir, bætur og fjármagnstekjur eru taldar með) er lægri á Suðurlandi en víða annars staðar, eða 67%. Ástæðan virðist liggja í öðrum tekjuliðum. Árið 2023 var hlutdeild fjármagnstekna til dæmis hæst á Suðurlandi af öllum landshlutum, eða 15%, sem bendir til umsvifa í eignamyndun og viðskiptum á svæðinu.

Fólksfjölgun og tekjur á íbúa
Þótt heildartekjur svæðisins hafi vaxið hratt hefur fólksfjölgun verið mikil á sama tíma, eða 26% frá árinu 2017. Þessi hraða fjölgun hefur áhrif þegar tölurnar eru skoðaðar niður á einstaklinga. Líkt og í flestum öðrum landshlutum lækkuðu atvinnutekjur á hvern íbúa (að raunvirði) milli áranna 2023 og 2024. Kynjamunur atvinnutekna á launþega á Suðurlandi var 29,7% árið 2024, sem er hærra hlutfall en á höfuðborgarsvæðinu en lægra en í mörgum öðrum landshlutum.
Vöxturinn færist út í dreifbýlið
Greining eftir tekjusvæðum sýnir áhugaverða þróun innan landshlutans árið 2024. Mest aukning heildaratvinnutekna var í uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi, eða 6,6%, og í Rangárvallasýslu nam vöxturinn 4,4%. Til samanburðar jukust tekjurnar um 3,9% í Árborg. Þetta gefur vísbendingar um að vaxtarbroddurinn sé ekki eingöngu bundinn við stærstu þéttbýliskjarnana heldur sé einnig mikill kraftur í dreifbýlinu og þeim svæðum þar sem ferðaþjónusta er ríkjandi.
Hvar er landbúnaðurinn?
Í þessu samhengi er þó rétt að hafa ákveðinn fyrirvara varðandi tölfræði landbúnaðarins. Gögnin í skýrslunni byggja á staðgreiðslugögnum og ná því ekki yfir rekstur einyrkja sem eru með rekstur á eigin kennitölu. Þetta kemur niður á mælingum á umfangi landbúnaðar þar sem stór hluti bænda rekur bú sín sem einyrkjar. Tekjur þeirra skila sér í gegnum skattframtöl en eru þar ekki sundurliðaðar eftir atvinnugreinum, sem þýðir að raunverulegt vægi landbúnaðar á Suðurlandi er vanmetið í þessum tilteknu gögnum. Nálgast má skýrsluna hér: https://www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/Atvinnutekjur/tekjur_2008-2024.pdf
Gögn og greiningar eru frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga.