Kæru íbúar og gestir:
Á afmælisdegi lýðveldisins er bæði gott og gagnlegt að líta yfir farinn veg til að átta sig á hvað hefur áunnist á þeim 105 árum frá því að landið hlaut fullveldið og þeim 79 árum sem liðin eru frá því að lýðveldið var stofnað á Þingvöllum.
Þann 1 desember 1918 var Ísland frumstætt land og fátækt. Þjakað af hrikalegri farsótt, spænsku veikinni, og að byrja að rétta úr kútnum eftir margra alda harðindi sem kostuðu landið sjálfstæðið. Þau urðu jafnframt til þess að hið blómlega land sem Norðmenn numu á sínum tíma varð nú eitt það fátækasta í veröldinni og hvar lífsskilyrði voru hvað erfiðust.
Með heimastjórn, fullveldi og nýrri tækni til fiskveiða tók hagurinn að vænkast. Verkalýðsbarátta hafði tekið á sig mynd. Kjör og aðstæður almennings byrjuðu að batna með róttækum breytingum á borð við almannatryggingar og vökulög á fiskiskip.
Hernumið landið lýsti yfir sjálfstæði þann 17. júní 1944 og við tóku nýir tímar. Fjármagn streymdi til landsins vegna og í kjölfar Seinna stríðsins og nútíminn hóf innreið sína á Íslandi.
Vegir voru lagðir. Símalínur reistar, skólar byggðir og bjartsýni var ríkjandi. Það var vor í lofti og nú skyldi haga málum betur en áður þegar fullveldi glataðist vegna átaka og illinda innanlands.
Margt má bæta og mörgu þarf að breyta.
Auðlindanýting og eignarhald þjóðarinnar á þeim er grundvallaratriði í sjálfstæði hverrar þjóðar. Það er afar mikilvægt að leiða þau mál í jörð og ná sátt sem kostur er.
Þáttaka í samfélaginu er öllum mikilvæg, og það er nauðsynlegt að við tökum tillit til skoðana hvers annars. En hver er svo besta leiðin til að fá einhverju breytt er það ekki að leggja okkar af mörkum til að móta umhverfi okkar og samfélag eins og við viljum hafa það.
Hin útgáfan gæti hljómað ef þú vilt að eitthvað sé gert skaltu gera það sjálfur. Það er undir okkur komið hvernig við viljum hafa samfélagið sem við búum í. Ef við höfum hugmyndir um breytingar eigum við að koma þeim á framfæri og fylgja þeim eftir.
Hér í Rangárþingi eru fjölmörg tækifæri til að styrkja samfélagið og byggðina, en það gerist ekki nema með samstilltu átaki og vilja íbúana. Jákvæðni og gleði eru góð vopn til þess að hafa í vopnabúrinu sínu ef fólki tekst að virkja þau vopn eru okkur allir vegir færir.
Njótum þess að vera til því lífið brosir svo sannarlega við okkur ef við bara viljum. Fólk gerir ekki kröfu um að allir séu jafnsettir, en fólk hefur ekki þol fyrir óréttlátri skiptingu þar sem sumir fá að njóta á meðan aðrir gera það ekki. Sérstaklega á þetta við þegar tilfinning fólks er sú að sumir fái fleiri og betri tækifæri en aðrir.
En gleymum því ekki að hver er sinnar gæfu smiður. 17 Júní komum við saman og gleðjumst með fjölskyldu og vinum og hefjum fánann á loft. Á þjóðhátíðardaginn minnumst við þeirra sem börðust og streðuðu í sveita síns andlits við að búa okkur betra samfélag.
En vinna og þrautseigja hinnar fyrri kynslóðar hafa lagt grunninn að því samfélagi sem við höfum í dag.
Jón Sigurðsson, frelsishetja og forseti, sagði eitt sinn í miðri baráttunni fyrir endurheimt fullveldisins að „Það þarf annað en hjalið tómt til að hrinda Íslandi á fætur aftur, það þarf atorku og ráðdeild og framsýni og þollyndi.”
Þetta eru orð að sönnu. Gerum þau að okkar og rifjum upp anda og eldmóð Jóns og félaga nú þegar við fögnum frelsi og fullveldi lands og þjóðar. Samstaða og eldmóður skila okkur fram um veg en illindi og sundrund halda aftur af okkur og þeim krafti sem í fullveldinu felst.
Kæru íbúar og gestir, til hamingju með daginn.
Eggert Valur Guðmundsson