Plokkum og flokkum

Stóri plokkdagurinn  verður haldinn sunnudaginn 28. apríl næstkomandi um land allt!

Rótarýhreyfingin á Íslandi skipuleggur daginn með ýmsum góðum bakhjörlum og markmiðið er í grunninn að hreinsa og fegra umhverfið.

 

Eftirfarandi leiðbeiningar frá plokkhreyfingunni er gott að hafa í huga áður en lagt er upp í plokkleiðangur:

HVAÐ ÞARF ÉG?

• Glæra plastpoka - best er að hafa tvo poka, setja plastið í einn og allt annað í hinn.

• Snæri eða bensli til að loka plastpokunum svo ekkert fjúki úr þeim þegar búið er að fylla þá.

• Plokktangir eru ágætar, ekki nauðsynlegar. Því ódýrari, því betri, segi ég af reynslu. Því þær sem eru dýrari eru efnismeiri og þá þyngri.

HVERNIG ERUM VIÐ ÚTBÚIN?

• Klæðum okkur eftir aðstæðum. Hanskar eru ákjósanlegir. Öryggisvesti eru ákjósanleg en skilda ef við erum að plokka meðfram vegum eða við götur.

HVERNIG VELJUM VIÐ STAÐ?

• Það er ekki ákjósanlegt að vera í kringum stór umferðarmannvirki eins og meðfram Reykjanesbrautinni og stóru umferðaræðunum í borginni nema fólk sé sérstaklega útbúið m.a. í endurskinsvestum osfrv. Og þetta eru ekki staðir fyrir börn.

• Í kringum þjónustukjarna er alltaf mikið plast og umbúðarusl. Þjónustukjarnarnir eru þar sem dagvöruverslanir, skyndibitastaðir, kaffihús, bensínstöðvar og ísbúðir er að finna. Það er iðulega mikið rusl sem fýkur frá ruslatunnum og ruslagámum við þessi svæði.

• Þá eru öruggustu svæðin líklega svæði í kringum íþróttavelli, skólalóðir og opin svæði. Girðingar í kringum þau taka oft drjúgt til sín.

• En við plokkum allstaðar þar sem þarf að plokka

 

Rangárþing ytra hvetur að sjálfsögðu öll til að plokka af kappi, flokka sorpið eftir megni og koma því í rétta tunnu eða gám.

Sveitarfélagið verður ekki með sérstakan viðburð á stóra plokkdeginum en stefnt er á að blása til hreinsunarátaks í byrjun júní en það verður auglýst fljótlega.

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?