Pistill oddvita
Það er stundum sagt að tíminn líði hratt þegar mikið er um að vera og verkefnin mörg. Og það hefur svo sannarlega verið nóg að gera hjá starfsfólki og þeirri sveitarstjórn sem tók við fyrir rúmu ári síðan.
Mig langaði í þessum pistli að fara yfir helstu framkvæmdir sem annað hvort eru þegar komnar til framkvæmda eða unnið að undirbúningi og vinnslu.
Grunnskólinn á Hellu og íþróttavallasvæðið
Stærsta einstaka framkvæmd sveitarfélagsins er viðbyggingin við Grunnskólann á Hellu, nú er unnið að lokafrágangi 1. áfanga verksins og verður byrjað að kenna í nýju húsnæði í haust. Samhliða því er unnið að því að koma fyrir bráðabirgðarhúsnæði á skólasvæðinu fyrir smíði og myndmennt. Framkvæmdir eru hafnar við jarðvinnu vegna 2. áfanga og er verktakafyrirtækið Þjótandi verktakinn eins og í fyrri áfanga. Búið er að semja við Steypustöðina um reisingu burðarvirkis og eru áætluð verklok í júní 2024. Í tengslum við þessa vinnu er hafin vinna við framtíðarhönnun á íþróttavallarsvæðinu á Hellu, auk þess sem vinna við þarfagreiningu á Laugalandsskóla fer í gang í haust, þar sem leitast verður við að uppfylla þær þarfir sem við viljum sjá í nútíma grunn og leikskóla. Einnig verða leiksvæðin bæði á Laugalandi og Þykkvabæ tekin til endurskoðunar og lagfæringar.
Iðnaðarhverfi, fráveitustöð og ný hverfi
Undanfarna mánuði hefur verið unnið að vegtengingum og nýja stofnlögn að fyrirhugaðri fráveitustöð sunnan þjóðvegar. Búið er að bjóða út gatnagerð við nýja götu Lyngöldu á Hellu og verður byrjað á þeirri framkvæmd á næstu dögum. Hvað varðar viðhald gatna og gangstétta verður lagt nýtt slitlag yfir Langasandinn og gengið frá regnvatnslögnum þar í sumar. Á næstu árum verða götur og gangstéttar í elstu hverfunum endurnýjaðar eftir ákveðinni forgangsröðun sem sveitarstjórn setur sér. Einnig er á lokametrum deiliskipulag fyrir nýtt íbúðahverfi, svokallað Bjargshverfi.
Efling Kaldavatnstengingar við Þykkvabæ
Nú er að hefjast vinna við nýja kaldavatnslögn frá Suðurlandsvegi og niður að Djúpós, þegar þeirri framkvæmd verður lokið á kaldavatnsöryggi að vera tryggt til framtíðar í Þykkvabæ.
Göngu- og hjólastígur
Unnið hefur verið að undirbúningi vegna hjóla og göngustígs á milli Hellu og Hvolsvallar, sem unnin er í samvinnu við Vegagerð ríkisins og Landsnet. Landsnet er að undirbúa að leggja nýjan rafstreng og eru ákveðin samlegðaráhrif með lagningu rafstrengs og göngu- og hjólastíg. Göngu- og hjólastígur verður ekki unnin á einu ári og er um verkefni til næstu fimm ára a.m.k. að ræða. Í sumar verður lagður stígur frá Ytri-Rangá að gangbraut fyrir framan Suðurlandsveg.
Viðhald á brúnni yfir Ytri-Rangá og ný göngubrú
Það hefur varla farið framhjá neinum að nú standa sem hæst viðhaldsframkvæmdir á brúnni yfir Ytri -Rangá, einnig verður sett göngubrú utaná gömlu brúnna sem ætti að tryggja öryggi gangandi vegfarenda. Þetta verkefni er unnið af Vegagerð ríkisins og eru áætluð verklok í haust.
Landmannalaugar
Umhverfisstofnun fer með umsjón friðlands að fjallabaki en sveitarfélagið fer með. Samstarf Umhverfisstofnunar og sveitarfélagsins er gott. Nú í júlí birti Skipulagsstofnun álit sitt vegna Umhverfismats í Landmannalaugum og er þar með margra ára ferli að ljúka. Deiliskipulag í Landmannalaugum hefur því formlega tekið gildi og uppbygging í takt við það getur hafist. Árið 2016 sótti sveitarfélagið um styrk til Framkvæmdarsjóðs ferðamannastaða til uppbyggingar 1. áfanga í Landmannalaugum sem snýr að göngustígum, þjónustuhúsi og verulegri stækkun bílastæðis við Námskvísl. Stefnt er að því að sveitarfélagið hefji framkvæmdir við stækkun bílastæðis á næstu vikum ásamt rofvörnum.
Fossabrekkur
Fossabrekkur eru ein af perlum Rangárþings ytra og var það fyrir hvatningu aðgerðarráðs Landmanna að farið var að huga að frekari uppbyggingu í Fossabrekkum með það að markmiði að náttúruperlan Fossabrekkur verði aðgengileg öllum frá réttu sjónarhorni. Framkvæmdasjóður ferðamanna veitti myndarlegan styrk til verkefnisins sem varð til þess að hægt var að fara af stað með það. Hönnun var boðin út í vor og hefur verið gerður samningur við Landmótun um hönnun áfangastaðarins. Stefnt er að því að framkvæmdir hefjist í haust.
Að sjálfsögðu eru fjölmörg önnur smærri verkefni í gangi frá degi til dags , og efalaust finnst mörgum þessi upptalning mikil en öll þessi verkefni miða að því að koma til móts við fjölgun íbúa, gesta og byggja upp og hlúa að innviðum sveitarfélagsins.
Eggert Valur Guðmundsson
Oddviti Rangárþings ytra