112 Iceland er nýtt snjallsímaforrit eða „app“ fyrir ferðafólk. Með forritinu geta ferðamenn kallað eftir aðstoð ef um slys eða óhapp er að ræða.
Hefðbundið GSM-samband nægir
Einnig geta þeir nýtt það til að skilja eftir sig slóð, „brauðmola“, en slíkar upplýsingar geta skipt sköpum ef óttast er um afdrif viðkomandi ferðalanga og leit þarf að fara fram. Ekki er þörf á gagnasambandi til þess að nýta forritið, hefðbundið GSM samband nægir.
Afhent öryggis- og björgunaraðilum
Valitor þróaði forritið í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Stokk en því er ætlað að auka öryggi ferðamanna hér á landi og þéttir það öryggisnet sem fyrir er í landinu. Að verkefninu hafa einnig komið Neyðarlínan, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra. Valitor hefur nú afhent þessum samstarfsaðilum nýja forritið til frjálsra nota og styður þannig hið mikilvæga öryggis- og forvarnarstarf þeirra.
Íslensk náttúra getur reynst hörð í horn að taka
Ferðamönnum fjölgar stöðugt hér á landi og samkvæmt könnunum Ferðamálastofu sækir stærsti hluti þeirra í náttúru landsins. Alkunna er að íslensk að náttúra getur reynst hörð í horn að taka, fólk getur fyrirvaralaust lent í óvæntum aðstæðum og áætlanir brugðist. Þegar slíkt hendir er nauðsynlegt að geta kallað eftir aðstoð á skjótan hátt og þar getur 112 Iceland komið sér vel.
Leysir ekki önnur öryggistæki af hólmi
Skýrt skal tekið fram að þessum hugbúnaði er ekki ætlað að leysa önnur öryggistæki á borð við neyðarsenda eða talstöðvar af hólmi. Hins vegar er forritið nýja gagnleg viðbót sem nýtist hinum mikla fjölda fólks er notar snjallsíma og þéttir þannig það öryggisnet fjarskipta sem fyrir er í landinu.
Notkun erlendis
Snjallsímaforritið 112 Iceland má einnig nota erlendis en samskiptin fara þó alltaf fram í gegnum númerið 112 á Íslandi. Í slíkum tilvikum hefur Neyðarlínan samband við viðbragðsaðila í viðkomandi landi sem aðstoðar síðan þann einstakling er í hlut á.
Bæði fyrir Android og iOS
Appið er frítt og er í boði fyrir bæði iOS og Android.
» 112 Iceland á Google Play (Android)
» 112 Iceland í App Store (Apple)
Sjá einnig á safetravel.is
Leiðbeiningar um notkun 112 Iceland
- Skráðu upplýsingar – notandi skráir inn nafn sitt og nafn og símanúmer nánasta aðstandenda. Þessar upplýsingar eru eingöngu notaðar ef notandi sendir úr forritinu á 112.
- Skildu eftir slóð – þegar ýtt er á þennan hnapp fer GPS staðsetning síma/notanda ásamt tímasetningu til 112. Upplýsingarnar eru eingöngu notaðar í tengslum við leit og björgun.
- SOS – þegar ýtt er á þennan hnapp er notandi að kalla á aðstoð því um neyð er að ræða. GPS staðsetning þín fer á 112 og einnig opnast á símtal. Aðstoð er send af stað.
Sjá frétt á vef Ferðamálastofu: http://www.ferdamalastofa.is/Category.mvc/DisplayElement?catid=809&moduleid=220&sid=8238