Nýr sviðsstjóri umhverfis,- eigna- og tæknisviðs

Haraldur  Birgir Haraldsson hefur verið ráðinn sviðsstjóri umhverfis-, eigna- og tæknisviðs Rangárþings ytra. Hann tók til starfa 1.okt. s.l. Starfið felur m.a. í sér umsjón með skipulags- og byggingarmálum sveitarfélagsins. Haraldur Birgir er blikksmiður, rekstrariðnfræðingur og byggingafræðingur að mennt. Hann hefur einnig víðtæka reynslu á sviði félagsmála í störfum sínum fyrir bæði sveitarfélög og ríki. Þegar hann sótti um stöðu hjá sveitarfélaginu starfaði hann sem skipulags- og byggingarfulltrúi fyrir bæði Sandgerði og Garð og var með skrifstofur á báðum stöðum.

Haraldur Birgir hefur flutt á Hellu ásamt fjölskyldu sinni, Örnu Steinunni Árnadóttur ásamt tveimur af þremur börnum þeirra; Hörpu sem hefur hafið störf á Leikskólanum Heklukoti og Haraldi Árna. Steinunn Ýr, elsta barn þeirra er við nám í Kaupmannahöfn.

Haraldur Birgir hefur aðsetur á skrifstofu sveitarfélagsins og þar er hægt að fá tíma til viðtals hjá honum eftir samkomulagi. Skrifstofan er opin frá kl. 10-15 virka daga.

Á hreppsnefndarfundi 11.okt. s.l. var samþykkt að nýta sér heimildir i lögum með að skipa ekki í byggingarnefnd en fela Skipulags-og byggingarfulltrúa fullnaðarafgreiðslu á byggingarmálum þess í stað sbr. bókun hreppsnefndar:

Skipulags- og byggingarfulltrúa er falin fullnaðarafgreiðsla erinda á sviði byggingarmála sem eru í samræmi við viðeigandi skipulag. Ef vafi leikur á hvort umsókn samræmist skipulagi tiltekins svæðis þá verður erindið lagt fyrir skipulagsnefnd. Mánaðarlega verða afgreiðslur byggingarfulltrúa teknar saman og kynntar fulltrúum skipulagsnefndar.

Þetta er gert til að auka skilvirkni, hagkvæmni og flýta fyrir ferli byggingarmála. Skipuð hefur verið þriggja manna skipulagsnefnd og í henni sitja:

Guðfinna Þorvaldsdóttir formaður, Margrét Harpa Guðsteinsdóttir varaformaður og Þorgils Torfi Jónsson.  Til vara: Valmundur Gíslason, Steindór Tómasson og Guðmundur Ingi Gunnlaugsson.

Með þessu fyrirkomulagi á málaflokknum er þess vænst  að hægt verði að bjóða íbúum og öðrum framkvæmdaaðilum sem besta þjónustu hverju sinni.

 

Guðfinna Þorvaldsdóttir oddviti Rangárþings ytra

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?