Nýlegar framkvæmdir í Helluþorpi hafa varla farið framhjá mörgum íbúum. Nýr stígur yfir hólinn er að taka á sig mynd og búið er að ryðja niður mönum í Ölduhverfinu.
Sveitarfélagið biðst afsökunar á kynningarskorti áður en ráðist var í framkvæmdir, þetta fer í reynslubankann og búið er að skerpa á verkferlum í kringum álíka verkefni, t.d. hvað varðar leyfi og grenndarkynningu.
Sitt sýnist hverjum en við vonum að þegar upp er staðið verði þetta allt saman til góðs. Meginmarkmiðin með þessum framkvæmdum eru betri tengingar á milli hverfa, bætt aðgengi og öryggi, auðveldara viðhald og samgöngubætur.
Göngustígur yfir hólinn
Áætlanir um betri samgöngur yfir hólinn hafa lengi verið á teikniborðinu og nú er nýr göngu- og hjólastígur að verða að veruleika. Markmiðin með nýjum stíg eru helst tvö; bætt aðgengi og aukið öryggi. Nú verður hægt að ganga og hjóla yfir hólinn á öruggari hátt allan ársins hring. Öryggið er ekki síst mikilvægt en með bættu aðgengi verður til dæmis hægt að huga að hálkuvörnum á viðunandi hátt. Töluverð umferð skólabarna er um hólinn og er þetta mikilvægt skref til að tryggja þeim greiðari og öruggari aðgang að skóla- og íþróttasvæði.
Endurhönnun svæðis í Ölduhverfi
Nýlega var slétt úr mönum sem lágu á milli Sigöldu, Brúnöldu, Eyjasands og Skyggnisöldu. Tré voru einnig fjarlægð og loks var grasi sáð yfir allt svæðið. Markmiðið með þessu er að tengja hverfasvæðin betur saman, auðvelda viðhald og byggja upp fallegt svæði til útiveru. Það tekur auðvitað nokkurn tíma að byggja þarna upp gróskumikið svæði en vonin er sú að strax næsta sumar verði þetta orðið notalegt svæði til útivistar.
Annað markmið með þessu var að leggja ítrekaða áherslu á að reiðstígurinn liggur ekki lengur þarna í gegn heldur liggur hann aftan við gámasvæðið og meðfram flugvellinum, í útjaðri þorpsins. Nokkuð mikið hefur verið um ríðandi umferð um göngustíginn sem liggur þarna í gegn og vonin er sú að með nýrri hönnun verði enn betur komið í veg fyrir það.
Teikning af stígnum: