G. Viðja Antonsdóttir og Gunnar Sigfús Jónsson munu opna nýja líkamsræktarstöð á Hellu eftir áramótin og hefur hún hlotið nafnið Rangárfit. Anton Páll Níelsson og Inga María S. Jónínudóttir, forfeldrar Viðju sem búsett eru á Hellu, eru einnig hluthafar í stöðinni.
Viðja og Gunnar eru nýbúar á Hellu, ef svo má að orði komast, fluttu þangað í haust ásamt dóttur þeirra Antoníu, sem er 8 mánaða. Hugmyndin að líkamsræktarstöðinni kviknaði eftir samtal Viðju við vinkonu hennar í lögreglunni á Hvolsvelli.
„Ég var að hvetja hana til þess að æfa sig meira og mæta í Crossfit Selfoss, henni fannst of langt að fara og talaði um hvað það væri svekkjandi að það væru ekki Crossfit tímar í boði á svæðinu, hún fílaði þá líkamsrækt. Þá kviknaði þessi hugmynd. Í framhaldi náði ég að smita Gunnar af þessu,“ segir Viðja.
Gunnar : „Af því að við erum bæði í þessu og allt í lagi að leyfa öðrum að njóta, þá leist mér bara vel á þetta. Það eru ekki allir sem geta farið í lyftingasalinn og vita nákvæmlega hvað þeir eiga að gera. Þetta er meira hópefli.
Viðja: „Þetta er svo þægilegt af því að þú þarft bara að mæta, það er einhver sem segir þér hvað þú átt að gera og hvernig. Svo ferðu bara þegar tíminn er búinn.
Hvernig kom það til að þið ákváðuð að byggja upp á Hellu ?
„Við vorum að leita að húsnæði, bæði á Hellu og Hvolsvelli, og það var töluvert úrval“ segir Gunnar. „Eigendur þessa húss, sem við enduðum í, höfðu samband , okkur leist vel á og slógum til.“
Hvernig hafa viðtökurnar verið?
„Það hafa allir tekið okkur virkilega vel og margir reiðubúnir að leggja hönd á plóg og aðstoða. Tilfinning okkar er að fólk bíði bara eftir að við opnum,“ segir Viðja.
Kynntust í Crossfit!
„Samfélagið er svo stór partur af þessu og það er ekki síst það sem okkur langar að byggja upp. Við kynntumst í Crossfit og eigum saman barn í dag, þannig að þetta hefur góð félagsleg áhrif,“ segir Viðja.
Fyrir hverja er Rangárfit?
Rangárfit verður líkamsræktarstöð í anda Crossfit, sem byggð verður upp á hóptímum. Markmiðið er að allir geti tekið þátt, óháð aldri og líkamsástandi. Æfingarnar verða lagaðar að getu hvers og eins.
Hvenær er stefnt að opnun?
„Það er stefnt að opnun eftir áramótin, en ég sé ekki fyrir mér að við náum að opna fyrr en í lok janúar. En við reynum auðvitað að opna sem fyrst,“ segir Gunnar.
„Ef einhverjir hafa tök á að leggja verkefninu lið eða langar að taka til hendinni í Rangárfit þá er hægt að setja sig í samband við okkur í gegnum Instagram. Það er bæði velkomið og vel þegið,“ segir Viðja.
Við óskum þeim að sjálfsögðu góðs gengis með verkefnið og hlökkum til að taka á því í Rangárfit eftir át-tökin um hátíðarnar. Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins á Instagram undir nafninu „Rangárfit“.
Þessi pistill birtist í fréttabréfi Rangárþings ytra sem má nálgast hér.