Frá og með síðustu áramótum eru allir grunn- og leikskólar í vestanverðri Rangárvallasýslu nú reknir innan Byggðasamlagsins Odda bs. Þetta fyrirkomulag fer vel af stað og gefur svo sannarlega færi til þess að nýta samlegð og samtakamátt til eflingar skólastarfsins á svæðinu um leið og kostir þess að líta á hvern skóla sem sjálfstæða einingu eru nýttir. Í hinni nýju og metnaðarfullu skólastefnu Rangárþings ytra og Ásahrepps – Göngum glöð til verka – birtist m.a. framtíðarsýn og vilji sveitarfélaganna hvað varðar allt starf og rekstur leikskólanna innan byggðasamlagsins Odda bs. Í fyrsta hluta skólastefnunnar er fjallað um hlutverk sveitarfélaganna. Þar koma fram þau meginmarkmið þeirra að skapa aðstæður í skólum sveitarfélaganna sem laða að hæfa og vel menntaða starfsmenn. Markmið skólastefnunnar er að allir starfsmenn hafi starfsréttindi. Þær leiðir sem nefndar eru til að ná þessu markmiði eru m.a. stuðningur við starfsmenn sem sækja sér nám til starfsréttinda.
Sveitarfélögin sem standa að Odda bs. hafa nú hrundið af stað metnaðarfullu átaki til eflingar leikskólastigsins. Þannig er nú áætlun um að fjölga fagmenntuðum starfsmönnum innan Odda bs. verulega á næstu misserum og árum með því að bjóða upp á markvissan stuðning til náms sem munar um og hlúa sérstaklega að hinu faglega starfi leikskólakennaranna. Það er gert m.a. með því að ríflega tvöfalda faglegan undirbúningstíma þeirra í viku hverri. Þessi niðurstaða var afrakstur markvissrar greiningar vinnuhóps á vegum Odda bs. á faglegu starfi, kjörum og starfsumhverfi starfsmanna leikskólanna nú í vetur. Sveitarfélögin hafa bæði samþykkt þann kostnaðarauka sem fylgir átakinu og þar með sýnt að hérna fylgir hugur máli.
Fjölgun fagmenntaðra
Samkvæmt lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla skal að lágmarki 2/3 hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla teljast til stöðugilda leikskólakennara. Því fer mjög fjarri að þessu lágmarki sé almennt náð í leikskólum landsins. Samkvæmt upplýsingum sem Samband Íslenskra Sveitarfélaga hefur tekið saman þá var einungis eitt sveitarfélag á landinu sem náði þessu hlutfalli árið 2013 en það var Hörgárbyggð með 71% starfsmanna með leikskólakennaramenntun. Að meðaltali eru 30% starfsmanna leikskóla sveitarfélaga hérlendis faglærðir leikskólakennarar. Til samanburðar þá er staðan allt önnur hjá grunnskólunum en þar er algengt að allir starfsmenn séu menntaðir grunnskólakennarar og í velflestum grunnskólum landsins, þ.m.t. grunnskólum innan Odda bs, eru a.m.k. 80% starfsmanna við kennslu grunnskólakennarar. Ef skoðaðir eru leikskólar Odda bs. þá kemur í ljós að eins og staðan er núna þá eru fagmenntaðir leikskólakennarar um fjórðungur starfsmanna eða vel innan við meðaltalið á landsvísu og langt innan við það sem lög kveða á um að sé viðmiðið. Þess ber þó að minnast að þannig er ástatt um mjög marga leikskóla landsins. Það er nauðsynlegt að setja fram markmið um fjölgun fagmenntaðra á leikskólum. Skynsamlegt hlýtur að vera að setja sér metnaðarfull en raunhæf markmið í þeim efnum með hliðsjón af almennri stöðu í leikskólum landsins.
Bætt starfumhverfi
Sá þáttur sem talinn er vega hvað þyngst til að laða að öflugt starfsfólk eru starfskjörin. Laun leikskólakennara fylgja nýjum samningi milli Félags leikskólakennara og Sambands Íslenskra Sveitarfélaga (gildir 1. júní 2015-31. mars 2019). Samkvæmt þeim samningi eru grunnlaun leikskólakennara (leyfisbréf sbr. lög nr. 87/2008) nú rétt um 400 þúsund kr. á mánuði, og leikskólastarfsmanns með bakkalár gráðu í leikskólafræðum (B.Ed) um 350 þúsund á mánuði. Laun leikskólakennara voru lengi vel lægri en grunnskólakennara en skv. núgildandi samningi Félags grunnskólakennara og Sambands Íslenskra Sveitarfélaga má sjá að laun grunnskólakennara (þrep 3) og leiðbeinenda (leiðbeinandi 2) eru algjörlega sambærileg við fyrrgreinda leikskólastarfsmenn. Yfirborgun með því að bæta við launaflokkum eða yfirvinnutímum á skjön við gildandi samninga er varla ráðleg né forsvaranleg leið til að bæta kjör leikskólakennara okkar. Hins vegar er mögulegt að bæta hin faglegu starfskjör verulega með því að fjölga undirbúningstímum sem nú eru 4 tímar á viku fyrir leikskólakennara og 5 tímar á viku fyrir deildarstjóra. Með slíkri ívilnun má létta verulega álagi af okkar fagmenntaða fólki og skapa starfsmönnum annan og betri grunn til að skipuleggja og sinna hinu faglega uppeldis- og fræðslustarfi.
Hvatning til náms
Nokkur sveitarfélög hafa farið þá leið að hvetja fólk til mennta í leikskólafræðum með launuðum námsleyfum og námsstyrkjum. Hjá aðildarsveitarfélögum Odda bs. hafa um nokkurt skeið verið í gildi reglur um launuð námsleyfi og nokkrir starfsmenn hafa nýtt sér þetta. Í átakinu sem nú hefur verið hrundið af stað hjá Odda bs. þá er um mun sterkari hvatningu að ræða því auk launaðra námsleyfa þá verði boðnir fram hreinir námsstyrkir. Slíkir styrkir eru mögulegir í ákveðinn fjölda námsanna, gegn ákveðinni námsframvindu, og eiga við um nám til diplóma-, bakkalár- og meistaragráðu en geta einnig fallið að lokaverkefnum sem tengjast leikskólum Odda bs. Sérstakar reglur hafa verið settar um styrkina á grunni Skólastefnu Rangárþings ytra og Ásahrepps 2016 – Göngum glöð til verka – og gilda um nema sem leggja stund á háskólanám í leikskólakennarafræðum og annað hvort vinna í leikskólum Odda bs. eða hafa áform um að gera það.
Markmið átaksins er að hækka menntunarstig starfsmanna í leikskólum Odda bs. og er liður í því að fjölga fagmenntuðu starfsfólki þeirra þannig að í árslok 2017 verði a.m.k. 2 af hverjum 5 starfsmönnum menntaðir leikskólakennarar og 2 af hverjum 3 starfsmönnum árið 2020 líkt og kveðið er á um í lögum nr. 87/2008 um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla í lögum um starfsmenn leikskóla.
Frekari upplýsingar um þetta metnaðarfulla átak sem við erum mjög stoltar af má finna á slóðinni www.ry.is/efni/fræðslu_og_uppeldismál.
Höfundar eru leikskólastjórar hjá Odda bs. Auður Erla Logadóttir leikskólastjóri Heklukoti og Sigrún Björk Benediktsdóttir leikskólastjóri leikskólanum Laugalandi.
Auður Erla Logadóttir og Sigrún Björk Benediktsdóttir.