Maíspokar víkja fyrir bréfpokum

Innleiðing bréfpoka undir lífrænan heimilisúrgang í stað maíspoka

Sorpstöð Rangárvallasýslu bs. hefur ákveðið að hætta notkun maíspoka undir lífrænan heimilisúrgang og innleiða notkun bréfpoka í staðinn.

Sorpstöðin að Strönd hefur um nokkurt skeið unnið sjálf úr öllum lífrænum heimilisúrgangi sem þangað berst í stað þess að senda hann langar leiðir til úrvinnslu með miklum kostnaði. Reynslan hefur leitt í ljós að maíspokar brotna illa niður við moltugerð á meðan pappírspokar brotna niður að fullu og auðvelda allt úrvinnsluferlið. Því er nú nauðsynlegt að maíspokar víki fyrir bréfpokum.

 

Hvernig fer ég að þessu?

Nokkrar leiðir eru færar og hver velur það sem hentar heimilinu.

Körfur

Mörg sveitarfélög mæla með grænu körfunni sem sést hér fyrir neðan. Hún og þessi gráa sem fæst í IKEA smellpassa undir bréfpokana sem fást í flestum verslunum. Fyrsta pokabúntið má nálgast á skrifstofum Rangárþings eystra, Rangárþings ytra og Ásahrepps á opnunartíma. Hvert heimili sem greiðir sorphirðugjald getur fengið eitt 80 poka búnt án endurgjalds en nota má hvaða bréfpoka sem er.

Til að koma í veg fyrir að pokarnir fari að leka getur verið sniðugt að klæða botninn með opnu úr dagblaði eða nokkrum bréfum af eldhúspappír. Einnig er mikilvægt að halda vökva eins mikið frá lífræna ruslinu og hægt er. Ráðlagt er að skipta um poka eigi sjaldnar en þriðja hvern dag til að forðast ólykt og leka.

Box/fötur

Hægt er að nota t.d. grænu fötuna sem var dreift á öll heimili á sínum tíma undir pokana. Einnig er hægt að safna lífrænum heimilisúrgangi í box eða litla fötu og tæma svo úr boxinu eða fötunni beint í bréfpoka og setja í brúnu tunnuna. Sé þessi aðferð notuð er einnig mikilvægt að lágmarka vökvann sem fylgir með í pokann.

 

Nauðsynleg breyting

Reynslan er oft besti kennarinn og nú þykir fullreynt að nýta maíspokana sem áður var talið að myndu henta vel. Þetta er því óumflýjanleg breyting til að hægt sé að nýta lífræna heimilisúrganginn á þann hátt sem kemur íbúum og umhverfinu best. Jafnframt er þessi breyting mikilvægt skref í átt að aukinni sjálfbærni, auk þess sem sparnaður fyrir sveitarfélögin og íbúa er mikill.

Nokkur reynsla er nú komin á notkun bréfpoka í sveitarfélögum víða hér á landi og hefur innleiðing þeirra að mestu gengið vel. Við vonum að íbúar Rangárvallasýslu taki vel í þetta og hjálpi okkur að keyra umskiptin í gegn bæði hratt og vel.

Við hvetjum íbúa til að vera í sambandi við sveitarfélögin eða Sorpstöðina varðandi allar spurningar sem kunna að vakna. Okkur er í mun að styðja vel við íbúa til að breytingin geti gengið sem best fyrir sig gagnvart bæði íbúum og Sorpstöðinni.

 

Sorpstöð Rangárvallasýslu bs.: 487–5157

Rangárþing ytra, Suðurlandsvegi 1–3 á Hellu: 488-7000

  • Opið frá kl. 9–15 mánudaga til fimmtudaga og 9–12 á föstudögum

Rangárþing eystra, Austuvegi 4 á Hvolsvelli: 488–4200

  • Opið frá kl. 8:30–16 mánudaga til fimmtudaga og 9–13 á föstudögum

Ásahreppur, skrifstofa Laugalandi: 487-6501

  • Opið frá kl. 12–16 mánudaga og miðvikudaga

 

Athugið að íbúar Ásahrepps geta einnig nálgast poka á Hellu.

 

Gerum þetta saman!

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?