Af gefnu tilefni er vakin athygli á bókun markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefndar frá í gær þar sem tekið var fyrir erindi frá íbúum vegna þeirra litabreytingar sem ákveðin hafði verið fyrir Töðugjöld í ár.
Nefndin þakkar íbúum fyrir sýndan áhuga. Ákvörðunin var tekin í vor (8. maí) eftir að kallað var eftir samtali á miðlum sveitarfélagsins vegna þess að hverfið þótti orðið of stórt. Mat nefndin það sem svo að íbúar væru reiðubúnir í breytingar. Það er mjög mikilvægt að íbúar taki þátt í umræðum þegar kallað er eftir þeim. Nú þegar eru einhverjir farnir að undirbúa skreytingar í svörtum og hvítum litum. Nefndin leggur til að halda litaskiptingunni óbreyttri en til þess að koma til móts við íbúa þá er eðlilegt að hverfið taki nokkur ár í aðlögun og þeir íbúar sem hafa skreytt í appelsínugulum og grænum litum haldi því áfram en blandi svörtum og hvítum við með tíð og tíma.
Töðugjöld verða haldin í 28. skipti en þau hafa verið haldin frá árinu 1994 að undanskildum Covid árunum og eru því með elstu bæjarhátíðum landsins. Töðugjöld er hátíð þar sem allir eru boðnir velkomnir og mikið er lagt uppúr því að fjölskyldan geti skemmt sér saman og dagskráin því miðuð að því. Töðugjöld eru undirbúin og haldin í samvinnu markaðs- og kynningarfulltrúa sveitarfélagsins og íbúa.
Í ár (2023) er það fjólubláa/bleika hverfið sem undirbýr Töðugjöld ásamt markaðs- og kynningarfulltrúa sveitarfélagsins. Bláa hverfið býður heim.
Hér má sjá litaskiptingu hverfa í ár.