Glódís Margrét Guðmundsdóttir píanóleikari mun halda tónleika í Selinu á Stokkalæk á annan í Hvítasunnu, hinn 20. maí nk. Þar mun hún leika verk sem hún hyggst flytja í píanókeppni Norðurlandanna í Danmörku nú í júní og síðar einnig á tónlistarhátíðinni Casalmaggiore Music Festival á Ítalíu. Á efnisskránni eru m.a. verk eftir Chopin, Beethoven, Nielsen og Rachmaninoff. Kaffiveitingar verða að loknum tónleikunum sem hefjast kl. 16. Miðapantanir eru í síma 4875512 og 8645870. Þessir tónleikar eru styrktartónleikar vegna hinna fyrirhuguðu ferða Glódísar til Danmerkur og Ítalíu og eru Rangæingar og nærsveitamenn sérstaklega hvattir til að láta ekki sitt eftir liggja.
Glódís er 22 ára gömul, fædd í Reykjavík en uppalin í Þykkvabænum. Hún stundaði nám við Tónlistarskóla Rangæinga og lauk þaðan prófi 2010. Útskriftartónleikar hennar voru haldnir í Selinu á Stokkalæk, einmitt á annan í Hvítasunnu fyrir réttum þremur árum. Frá þeim tíma hefur Glódís lagt stund á píanóleik hjá Peter Maté í Listaháskóla Íslands. Hún hefur oft verið við æfingar í Selinu og má nefna að í næsta mánuði mun Peter Maté verða þar með æfingabúðir fyrir Glódísi og samnemendur hennar sem taka munu þátt í píanókeppninni í Danmörku. Þá verða opnar æfingar kl. 17 dagana 17., 18. og 19. júní og er öllum frjálst að koma þá og hlýða á hina ungu meistara.