Þriðjudaginn 6. febrúar, var dagur leikskólans haldinn hátíðlegur í leikskólanum á Laugalandi en 6. febrúar er merkisdagur í íslenskri leikskólasögu því þann dag árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.
Dagur leikskólans er samstarfsverkefni Félags leikskólakennara, Félags stjórnenda leikskóla, mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Heimilis og skóla. Tilgangurinn er að auka jákvæða umræðu um leikskólann, vekja umræðu um hlutverk leikskóla og starf leikskólakennara og kynna starfsemina út á við.
Til að kynna starfsemi okkar út á við var ákveðið að bjóða ömmum og öfum nemenda í kaffi. Börnin sýndu gestum sínum leikskólann sinn og einnig fengu þeir tækifæri til að perla, leira, lesa og leika sér. Síðan var boðið upp á bollur sem þau höfðu bakað deginum á undan. Mikil ánægja var með daginn og bíða afar og ömmur spennt eftir að fá að koma aftur og sjá hvað barnabörnin eru að bralla í skólanum. Að kynna leikskólastarfið á þennan hátt finnst okkur gaman en aðeins örfáir afar og ömmur hafa sjálf fengið tækifæri til að vera í leikskóla og því opnast fyrir þeim sá heimur sem barnabörnin lifa og hrærast í á daginn.